Ég keypti mér mynd fyrir jólin. Myndin sú er TITANIC gerð 1996, með Kötu Zetu Jóns og Pétri Galla.
Myndin ku vera endurgerð upprunalegu Titanic myndarinnar, en kemur á undan nýjustu og flottustu myndinni með Kötu Winslet og Leonard frá Kapri.
Myndin er tæpir 3 tímar að lengd og sagan er afskaplega keimlík sögu seinni og frægari myndarinnar. Unga fólkið á 3ja farrými, snobbliðið á 1. farrými. Öfund, hræsni, hroki og græðgi ræður ríkjum á meðan allt leikur í lyndi. Þegar svo virkilega tekur að halla undan fæti tekur við grimmd og vonska sem aðeins mannskepnan ræður yfir. Enginn er annars bróðir í leik. Það sýnir sig þegar fjölskyldur splundrast og hver þarf að sjá um sjálfan sig.
Vissulega eru undantekningar á þessu. Sem betur fer eru sumir þannig gerðir að þeir vilja sínum nánustu allt framyfir eigin hag og það er til fólk sem hjálpar sínum nánustu og þeim sem þeir elska í björgunarbáta, en standa sjálfir bjargarlausir eftir.
Þannig er semsé sagan af Titanic. Ég mæli með báðum myndunum, bæði þessari og þeirri sem gerð var 1997. Ég bíð reyndar eftir að gerð verði mynd um Estoniu, skipið sem sökk á Eystrasalti 1994 og örlög farþega hennar. Þar er á ferð samtímafrásögn fólks sem þurfti að kljást við ískalt hafið að nóttu til að bjarga lífi sínu eftir að skipið sem þau treystu sökk undan fótum þeirra.
Kveðja
Björgvin
Björgvin Árnason