Tvær Scrabble myndir í undirbúningi
Stundum berast ótrúlegustu fréttir frá Hollywood, en sjaldan jafn furðulegar og þær að það sé verið að gera ekki eina, heldur tvær kvikmyndir byggðar á orðaspilinu Scrabble. Á leikstjórinn Curtis Hanson ( L.A. Confidential ) réttinn á annarri, Word Freak, þó ekki sé ljóst hvort hann hyggist leikstýra eða aðeins framleiða. Á hún að vera drama, kannski eitthvað í átt við Searching For Bobby Fischer og fjallar um mann sem er með þráhyggju fyrir Scrabble. Hin myndin aftur á móti, sem Miramax kvikmyndaverið á réttinn á, verður rómantísk gamanmynd sem ber hið frumlega heiti Your Word Against Mine. Fjallar hún um ólíklega ást sem myndast á milli tveggja manneskja sem stunda Scrabble keppnir af miklum móð.