Sjaldséðir hvítir hrafnar, einn þeirra var á ferðinni hjá RÚV á laugardgskvöldið þegar mynd Darrens Aronofsky, Requiem for a Dream frá árinu 2000 var sýnd, og það í annað skiptið.

Það er meira að segja orðið sjaldgæft að bandarískar kvikmyndir rati hingað til lands í því bíómyndaflóði sem liggur yfir hafið, þó er farin að sjást einstaka mynd á leigum eins og Elefant og Mean Creek.

Requiem for a Dream fjallar um fjórar manneskjur sem upplifa utopiuna sem eiturlyf geta gefið, en þegar líður á myndina er því fylgt eftir þegar sá gerfiheimur rifnar í tætlur eftir því sem fíknin verður sterkari og tekur yfir aðgerðir, tilfinningar, hegðun og ákvarðanatöku þessarra fjögurra einstaklinga. Í lok myndarinnar hefur fíknin og afleiðingar hennar eyðilagt eða haft niðurbrjótandi áhrif til lífstíðar á alla þessa fíkla.

Sarah Goldfarb (Ellen Burstyn) er einmanna ekkja og sjónvarpsfíkill sem fær boð um að koma fram í sjónvarpsþætti og fer í framhaldinu og fær megrunarpillur hjá lækni, innihaldið eru einhverjar amfetamínafleyður og áhrifin eftir því. Vellíðan og kílóatap leiðist út í vanlíðan, vannæringu og geðveiki og hún endar á geðdeild þar sem hún fær meðal annars raflostmeðferð þar sem líkami hennar bregst illa við venjulegum lyfjum.

Harry Goldfarb (Jared Leto) er sonur Ellenar sem er sokkinn í neyslu með drauma um að geta selt eiturlyf til að fjármagna neyslu sína og unnustunnar, endalausir draumar og loforð um betri tíð og að hlutirnir verði betri, en í staðinn endar hann að missa annan handlegginn vegna dreps í sprautusári, einn á sjúkrahúsi í öðru ríki og engar til að sækja sig með dóm yfir höfði sér.

Marion Silver (Jennifer Conelly) er unnusta Harrys, hún er líka fíkill og treystir á Harry til að útvega efni og trúir loforðum hans um betri tíð og að geta stofnað búð sem selur hluti sem hún sjálf hannar. Hún endar brotin og niðurlægð eftir að hafa lagst undir fyrrverandi kærasta fyrir pening, eiturlyfjasala fyrir skammt og tekið þátt í viðbjóðslegri kynlífssýningu fyrir háskólanema til að komast yfir meira efni.

Tyrone C. Love (Marlon Wayans) er fíkill og vinur Harrys, deilir með honum draumum um betri tíð og gróða á fíkniefnasölu. Hann er vel tengdur í fíkniefnaheiminum en þegar hann er við það að hækka í tign í dópheiminum lendir hann í miðjunni á morðum í gengjastríði og engin efni fást á götunni í kjölfarið. Hann leggur því af stað til Florida með Harry en endar í fangelsi og vinnubúðum í ríki þar sem greinilega er litið mikið niður á svarta, ekki síst ef þeir eru að auki dópistar frá NY.

Myndataka er góð og falleg í þessu ógeðslega ferli í lífi þessarra einstaklinga, myndmál er gott, klippingar vel heppnaðar og leikstjórinn, Darren Aronofsky, nær að sýna tilfinningar einstaklinganna mjög áþreifanlega og gerir áhorfanda auðvelt að setja sig í spor þeirra frá upphafi, sem eykur síðan hughrifin þegar líf þessarra sömu einstaklinga hrynur.

Hljóðsetning er áhrifamikil og er notuð til að einkenna athafnir, undirstrika hugarástand og vekja óhug og jafnvel hræðslu þegar líður á myndina. Tónlist er einföld og án þess að hafa fundi neitt um það (kanski getur einhver hjálpað mér í því) er ég nokkuð viss um að þar sé á ferðinni sami maður og vann í óhugnanlegri mynd Lukas Moodysson Lilja 4-ever.

Góð kvikmynd. ég vona að sem flestir hafi séð aðra hvora sýninguna á henni og ég vona líka ða RÚV haldi áfram að sýna góðar nútímakvikmyndir.

massi