Ágætt að áhrifamiklar myndir í sögunni séu í umræðunni hér á Huga.is, Clockwork Orange er svo sannarlega ein af þeim og vekur unglinga jafnt sem fullorðna til umhugsunar enn í dag, ekki jafn mikið þó og fyrir rúmum 30 árum.
Myndin stílar inn á marga hluti hjá áhorfandanum og gerir það í gegnum ungdóminn, sem ávallt snertir fínar taugar í okkur.
Sögu-“hetjan” er krakkaræfill, týpa sem allir hata og fyrirlíta í daglega lífinu, nauðgari og ofbeldisseggur sem felur sig inni í hópi jafnslæmra einstaklinga sem svíkja hann auðvitað á endanum, enda sömu ræflar og hann, svo að hann endar í fangelsi, þar sem hann gengst undir byltingarkennda tilraun til betrunar sem á að leiða til óþols gegn ofbeldi.
Ofbeldi unglinga er klárlega notað til að hreyfa við áhorfandanum, enda eitthvað sem flestir fullorðnir hafa áhyggjur af. Á móti kemur aðalhugmynd myndarinnar sem er að valfrelsi einstaklingsins og frjáls vilji sé manninum mikilvægast og án þess séu mennirnir bara “A Clockwork Orange”.
Þjóðfélagsleg ádeila um að Alex sé einungis afurð samfélagsins sem við höfum búið til og að hann sé ekki verri en stjórnvöld í myndinni hjálpar til að gera Alex mannlegri, auk þess sem öll fórnarlömbin eru frekar ömurlegar persónur og ekkert reynt til að láta okkur vorkenna þeim að neinu marki.
Unglingar og frekar óþroskaðir einstaklingar eiga auðvelt að sjá einhverskonar hetju í Alex, meðan þeir sem eldri eru finna sjálfan sig frekar í þeirri skammarlegu tilfinningu að halda með honum og vona að honum takist að vinna sig umm og geta farið að beita ofbeldi á ný. Þeir sem vilja fá nægar ástæður til að predika að boðskapur bíómynda geti haft slæm áhrif á unglinga.
Semsagt, eitthvað fyrir alla :-)
Anthony Burgess skrifaði þessa umdeildu bók og fyrir aðrar bókmenntir er hann ekki þekktur að ráði, en hann hefur þó haft nokkuð til síns máls þegar hann rýndi inn í framtíðina og gaf út þessa bók árið 1962. Þetta er samt sú bók sem var í minnstu uppáhaldi hjá honum sjálfum.
Stanley Kubrick festi síðan verkið á filmu árið 1971 og urðu um hana miklar deilu og það mikið af eftirhermuglæpum í Bretlandi að Kubrick sjálfur bannaði sýningar þar í landi árið 1973. Stutt er síðan banninu var aflétt, eftir dauða Kubricks.
Kubrick notaði nýjan en óákveðinn stíl í myndinni, hávært óþægilegt tal og mikið af langdregnum samtalssenum með stöðugri myndavél sem verða oft á tíðum leiðinlegar en setja ákveðinn stíl á myndina. Þessu gæti hafa verið breytt í nýju útgáfunni til að gera myndina þægilegri áhorfs, en ég hef ekki séð þá útgáfu.
Burgess varpaði fram þeirri kenningu með þessarri hrottafengnu sögu, að jafnvel illska, svo lengi sem hún er val, sé betri og mannlegri en þvinguð, einbeitt gæska Ludovico tækninnar sem beitt er á Alex í myndinni. Mjög umdeild kenning eins og gefur að skilja.
Sennilega hefði Kurbick sloppið við eftirhermuglæpirna og bannið ef hann hefði gert myndina eftir Bresku útgáfu bókarinnar í stað þeirrar Bandarísku, því að í mikilli peningaþörf leyfði Burgess bandaríska útgefandanum W.W. Norton að sleppa 21. og loka kaflanum þar sem farið var í áframhaldandi þroska Alex og eftirsjá vegna voðaverkanna, og án kaflans má vel skilja myndina sem hlynnta ofbeldi, sem hún á alls ekki að vera.
Að auki var rússneska slangrið “Nadsat” sem glæpaklíkan notaði aðeins birt í bandarísku útgáfunni og síðar myndinni, og það þótti kananum ekki leiðinleg, tenging kommúnismans við illskuna. Burgess sá alltaf eftir leyfinu á þessum 2 breytingum sem hann gaf útgefanda sínum, en hvað gerir maður ekki fyrir peninga?
Sennilega er “A Clockwork Orange” ein umdeildasta mynd allra tíma.
massi