Detroit Rock City er ein af mínum uppáhalds gamanmyndum. Hún var gefin út árið 1999 og leikstýrð af Adam Rifkin, en handritið samið af Carl V. Dupré. Með aðalhlutverk fara þeir Edward Furlong, Natasha Lyonne, Sam Huntington og James Debello.
Myndin gerist undir lok áttunda áratugarins, þegar KISS-æðið stendur hæst. Hún fjallar um fjóra unglingspilta, sem halda til Detroit-borgar vegna þess að þeir halda sig hafa unnið miða á KISS-tónleika þar í borg í útvarpsþætti. En í gleðivímu sinni í Detroit-borg komast þeir að því að sá þeirra sem hafði hringt og svarað spurningunum í þættinum, hafði sett tólið á of fljótt, svo að miðarnir voru gefnir öðrum þátttakendum. Þegar bíl drengjanna er stolið ákveða þeir að halda hver í sína áttina, og þeir lenda í heilmiklum ævintýrum í stórborginni. En auðvitað endar myndin vel og piltarnir koma að lokum saman aftur og komast með undraverðum hætti inn á tónleikana. Á þessum tíma hlustaði unga kynslóðin annaðhvort á rokk eða diskó, en rokkararnir fjórir lenda einmitt í útistöðum við tvo FM-hnakka áttunda áratugarins. Tónlistin í myndinni er eitt það besta við hana. Þarna er urmull af gömlu hressilegu rokki, t.d. hljómsveitum eins og KISS, Sweet, Ramones og fleirum. Lista með lögum kvikmyndarinnar má nálgast á http://imdb.com/title/tt0165710/soundtrack.
Að mínu mati er þetta sprenghlægileg mynd og frábær til að fara í hláturskast yfir. Hún er ágætlega leikin, þrátt fyrir fáa fræga leikara. Þó er eitt atriði sem fer í taugarnar á mér. Þetta er atriðið þegar þeir eru á leiðinni til borgarinnar og bjóða stúlkunni far. Og þá tekur við allt þetta langa og leiðinlega samtal í bílnum. En ég endurtek: Þetta er frábær mynd, ekki síst fyrir rokkarana.
kv. Jói P