Ég var hjá frænda mínum um daginn og rakst á gamallt Morgunblað frá 27 júní, ég ákvað að skrifa hana upp:
Fyrsta kvikmyndasýning hér á landi var í Góðtemplarahúsinu á Akureyri laugardaginn 27. júní 1903, kl. 8 eftir hádegi. Í auglýsingu í blaðinu Norðurlandi þennan dag kom fram að fjölbreytt efni væri á dagskránni svo sem myndir úr dýragarði, af Búastríðinu í Suður-Afríku og tveggja ára gamlar fréttamyndir af krýningu Játvarðar sjöunda Englandskonungs. Auk þess var „mikið úrval af alþýðlegum og skringilegum myndum“. Blaðið sagði að myndirnar væru einkum hugnæmar vegna þess að „hreyfingarnar sjást alveg eins og þær eru í lífinu“.
Sýningarnar á Akureyri urðu alls átta á fjórum dögum. Norðurland sagði að áhorfendur hefðu ekki orðið fyrir vonbrigðum. „Þrátt fyrir loftleysi og feikihita – þar sem loka varð gluggum og dyrum til þess að gera aldimmt inni – sat þar húsfyllir í hvert sinn og skemmti sér hið besta. Ýmsir tóku það jafnvel fram að betur hefðu þeir ekki skemmt sér á ævi sinni.“ Það voru tveir útlendingar, D. Fernander og R. Hallseth, sem stóðu fyrir þessum sýningum, fyrst á Akureyri, síðan á Ísafirði 11. júlí og í Reykjavík 27. júlí.
Úr grein eftir Jónas Ragnarsson í Morgunblaðinu 27. júní 2003.