Myndin “Little Big Man” var sýnd í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Þetta er með frægari myndum frá þessum tíma og þótti einstaklega sterk og áhrifamikil.
Þema myndarinnar er útrýmingarherferð Bandarísku ríkisstjórnarinnar gegn indíánaættbálkum í lok 19. aldar, og endar í hinni frægu orrustu við Little Big Horn þar sem Custer var drepinn.
Í myndinni leikur Dustin Hoffman mann sem elst upp hjá indíánum en á síðan mjög litskrúðugan feril meðal hvítra landnema og indíána. Myndin er oft mjög fyndin og einstaklega vel gerð, sviðsetning mjög góð og mikill raunveruleikablær yfir henni.
Einstaklingurinn sem Dustin leikur endar með því að hatast við Custer vegna aðfara hermanna hans gegn indíánum, sérstaklega konum og börnum. Og her hefur myndin verið rækilega klippt frá þeirri útgáfu sem var sýnd hér í bíó á sínum tíma. Ofbeldissenur í árás hermanna á indíánaþorp voru með ólíkindum óhugnanlegar, og voru svo miklu sterkari fyrir það að myndin sjálf er að mestu leyti fyndin og góðlátleg.
Þessi mynd hafði mjög sterk áhrif á alla sem sáu hana og það var með talsverðri tilhlökkun sem ég tók frá tíma til að horfa á hana í gærkvöldi - en þetta var alls ekki sama myndin! Skærin hafa verið mundað, margir metrar klipptir út og sem listaverk er myndin stórskemmd eftir þetta.
Ritskoðun á þennan hátt ætti ekki að eiga sér stað - og ef það er gert á að láta áhorfanda vita að myndin hefur verið ritskoðuð. Hérna fannst mér ríkissjónvarpinu okkar bregðast illilega bogalistin!
Kveðja
Brynjólfu