Ég er núna búin að vera í dálítinn tíma hér á Huga, en aldrei skrifað alvöru grein fyrr! Svo það er kannski kominn tími til að ég losi mig við “greinarmeydóminn”, he he…
En mig langaði dálítið til þess að segja ykkur frá einni mynd sem ég sá fyrir um það bil mánuði síðan, nánar tiltekið á kvikmyndahelgi sem Kvikmyndaskóli Íslands stóð fyrir helgina 13. til 15. september, þar sem voru nokkur þemu tekin fyrir og sýndar kvikmyndir úr hinum ýmsu geirum. Ég hafði reyndar bara tíma til þess að sjá eina mynd þarna, því miður. Geri betur næst.

Myndin sem ég sá heitir “The Wicker Man” og er nokkuð gömul bresk “költ”-mynd, gerð árið 1973. Söguþráðurinn er í stuttu máli svona: Rannsóknarlögreglumaður við Scotland Yard að nafni Neil Howie (Edward Woodward), fær sent dularfullt nafnlaust bréf frá afskekktri skoskri eyju fyrir utan Skotland, þar sem hann er beðinn að koma og rannsaka dularfullt hvarf á 12 ára stúlku, Rowan Morrison. Hann fer af stað einn síns liðs til eyjarinnar, og kemst þar í kynni við íbúana, sem eru allir meira en lítið furðulegir. Enginn segist vita neitt um Rowan, en samt virðast allir vita eitthvað sem þeir vilja ekki segja frá. Smátt og smátt kemst Howie svo að því að eyjarskeggjar hafa allir sagt skilið við hefðbundinn kristindóm eins og við þekkjum hann. Þeir iðka ævafornan heiðinn keltneskan átrúnað, undir stjórn leiðtoga eyjarinnar, Summerisle lávarðar (Christopher Lee), en eyjan heitir einmitt Summerisle. Þeir iðka kynlífsorgíur í því sem eitt sinn var kirkjugarður, dansa naktir í kringum reðurtákn, og þar fram eftir götunum. Þetta er náttúrulega þvílíkt menningarsjokk fyrir greyið Howie, en hann er strangtrúaður kristinn Kalvínstrúarmaður eins og þeir gerast stífastir og íhaldsamastir. Sérstaklega er það sjokkerandi reynsla fyrir hann þegar dóttir kráareigandans á staðnum, Willow (Britt Ekland), reynir að magna seið til þess að tæla hann til fylgilags við sig (hún dansar nakin og syngur á meðan).
En þetta er ekki allt. Brátt rennur hinn ægilegi sannleikur upp fyrir Howie. Það er ekki aðeins það að íbúarnir séu hundheiðnir, heldur eru þeir trúlega sekir um morð! Þannig er mál með vexti að þann 1. maí ár hvert, en þann dag kalla Drúídar Beltane, færa þeir guðunum fórnir. Og ef uppskeran bregst, þá er gjarnan manni fórnað! Þar kemur heiti myndarinnar inn í dæmið, en þetta er risastórt tágalíkneski af manni, sem alls kyns dóti, jurtum, dýrum, og jafnvel mönnum, er komið fyrir í og síðan kveikt í öllu saman! Og þetta hafa hugsanlega verið örlög Rowan litlu!
Og endirinn er svakalegur…

Hvernig fannst mér svo þessi mynd? Jú, hún kom mér mjög á óvart, og mér fannst hún barasta mjög góð. Hún hefur oft verið skilgreind sem hryllingsmynd, en ég get alls ekki tekið undir það. Ég myndi miklu frekar skilgreina hana sem blöndu af svartri kómedíu (hún var mjög fyndin á köflum, en húmorinn er alveg kolsvartur), háðsádeilu (til að mynda á stífan, íhaldsaman kristindóm), sýrðri hippamynd (hún er jú gerð árið 1973 og er MJÖG hippaleg!) og jafnvel dans og söngvamynd! Tónlistin í myndinni er nefnilega alveg þrælgóð, ýmist keltnesk þjóðlagatónlist eða hippalegt þjóðlagapopp eins og það gerðist í þá daga.
Nú, leikarar stóðu sig allir bara nokkuð vel, sérstaklega fannst mér Edward Woodward (þið hafið kannski séð hann í Equalizer?) og gamla hetjan Christopher Lee fara á kostum. Fyndið að sjá Christopher Lee svona ungan! Við erum jú nýbúin að sjá hann í tveimur myndum, Star Wars og Lord of the Rings. – Lee hefur reyndar sagt að The Wicker Man sé skemmtilegasta mynd sem hann hefur leikið í!
Myndatakan er nokkuð flott líka. Umhverfið á þessari skosku eyju er ægifagurt og nýtur sín vel í myndinni. – He he, það er fyndið að horfa á það hvað allt útlit myndarinnar er bjart og “jolly” á allan hátt, en undir niðri er allt samfélagið svo “sick!” Það er sennilega það sem fólki finnst svo óhugnanlegt.
Samt er svo gott að myndin tekur ekki afstöðu með eða á móti hverri trúnni fyrir sig, þannig að bæði kristnir og heiðnir geta haft ánægju af þessari mynd.

En núna langar mig til að heyra frá ykkur. Hafið þið séð þessa mynd, og ef svo er hvað finnst ykkur? Ef ekki, þá get ég alveg mælt með henni. Hún er a.m.k. til á DVD niðri í Nexus (svæði 1), annars hlýtur hún að vera til í Laugarásvídeói eða eitthvað.
Ég gef henni 3 stjörnur af 4. :)

Kv. Delenn