Einn allra frægasti og skemmtilegasti grínleikari okkar tíma er hann Robin Williams. Sérstaklega þekktur fyrir frábæran hæfileika á spunasviðinu. Robin McLaurus Williams fæddist í Chicago árið 1952, þann 12. júní. Pabbi hans, Robert, var framkvæmdastjóri Ford Motor Company og mamma hans, Laurie, var tískumódel. Þótt að foreldrar hans hafi átt nokkur börn úr fyrri hjónaböndum þá var Robin einkabarn. Hann hafði því mikinn tíma með sjálfum sér, þeim tíma eyddi hann mikið með því að leggja á minnið plötur með spunameistaranum Jonathan Winters, en hann var fyrirmynd Robins. Vegna starfs föður síns þá voru þau alltaf á stanslausu ferðalagi, alltaf að flytja. Hann var alltaf dáldið feitur í grunnskóla og fékk þá, auðvitað, stríðni frá skólafélögum sínum. En útaf þessari sífelldu stríðni náði hann að þjálfa svarviðbragðið og kom hann alltaf með rosalega flott svar á móti þeim sem voru að stríða honum. Þaðan er hans frábæri spuni kominn. Síðasta ár hans í menntaskóla hættu flutningarnir. Robert og fjölskylda settust varanlega að í Kaliforníu, og um það leyti var Robin kosinn fyndnasti maður skólans og einnig sá líklegasti til að ‘meika’ það.
Eftir menntaskólann þá hélt hann áfram í hinn virta Claremont Men’s háskólann til að læra pólitísk vísindi, hvað sem það er. Hann fór einnig í nokkra leiklistarskóla, þ.ám. 3 ár í Julliard drama skólanum undir stjórn John Housemans, til gamans má geta að Houseman sagði við Robin að þetta væri sóun á hæfileikum hans að vera hérna og hann ætti að fara og byrja á sínum uppistöndum í staðinn. Fyrsta hlutverk hans var í myndinni ‘Can I Do it… Till I Need Glasss?’, erótísk gamanmynd sem varð lítið sem ekkert vinsæl. Stóra tækifærið hans var hins vegar þegar hann var í Mork & Mindy, mjög vinsælir sjónvarpsþættir árið ’78-’82. Williams lék þá brjálaða geimveru sem kemur til jarðar til að kynna sér jarðarbúa. Skemmtilegt að minnast á það en þegar Robin kom til að sækja um hlutverkið sem geimveran þá var sagt við hann að hann hefði verið sá eini sem hefur sótt um hlutverkið. Meðan tökum stóð á þáttunum var Robin svo mikið í því að spinna og það vel að framleiðendur létu Robin ekki fara eftir handritinu heldur létu þeir bara eyður í handritið og leyfðu honum að spinna þar. Robin var þarna kominn í hóp vinsælustu gamanleikara samtímans ásamt Richard Pryor og Billy Crystal. Örugglega ekki margir sem vita það en hann Robin var mikill eiturlyfjafíkill á árum Mork & Mindy. Hann hætti þegar góður vinur hans, John Belushi, dó úr ofskömmtun. Þetta var einnig um það leyti þegar fyrsti sonur hans fæddist.
Eftir nokkrar lítið þekktar myndir kom hans fyrsta fræga mynd, Good Morning, Vietnam. Þar leikur hann plötusnúð á bandarísku herstöðvarútvarpi og hristir hann heldur betur í hlutunum þar. Fyrir þetta hlutverk náði hann að vinna sér inn sína fyrstu Óskarstilnefningu. Tveimur árum seinna, árið 1989, fékk hann hlutverk sem John Keating, háskólaprófessor í Dead Poets Society. Hann leikur þar kennara sem tekur starf sitt heldur alvarlegra en aðrir venjulegir kennarar. Robin fékk þá aðra sína Óskarstilnefningu, en myndin var fyrir utan það tilnefnd til þriggja Óskara. Hún vann fyrir besta handritið. Aðeins ári seinna lék Robin í annari frábærri mynd með meistara Robert De Niro, Awakenings. Fjallar hún um heldur ófélagslyndan lækni sem reynir að lækna sjúkling sem er haldinn erfiðum sjúkdómi, frábær mynd. Næsta ár lék hann í mynd Terry Gilliams, The Fisher King. Önnur snilldarmynd á ferli hans. Jeff Bridges leikur aðalhlutverkið í þeirri mynd. Útvarpsmaðurinn Jack Lucas (Bridges) gerir hræðileg mistök þegar hann segir eitthvað um mann sem seinna hleypur um óður með haglabyssu drepandi fólk og að lokum sjálfan sig. Parry er riddari leikinn af Robin sem er að leita af Heilaga bikarnum og tekur hann Lucas með sér í þessa miklu ferð, hans þriðja Óskarstilnefning þar. Í mynd Steven Spielbergs, Hook, árið ’91 leikur hann Pétur Pan á eldri árum. Nokkuð misheppnuð mynd frá meistaranum Spielberg.
Seinna talaði hann inná tvær teiknimyndir næst, önnur þeirra er heimsþekkt og þekkja allir, Aladín. Talaði hann inná fyrir andann fræga sem Laddi gerði svo skemmtilegan. Hans næsta fræga hlutverk átti eftir að breyta ferli sínum svo um munaði. Árið 1993 tók Robin að sér hlutverkið sem ein frægasta barnfóstra kvikmyndasögunnar, Mrs. Doubtfire. Daniel Hillard er hálfgert barn sjálfur og er nýbúinn að ganga í gegnum mikinn skilnað við konuna sína og fær því ekki að hitta börnin sín. Hann tekur þá til ráða að dulbúast sem skosk sextug barnfórstra, Fr. Iphagenia Doubtfire. Myndin varð ein af vinsælustu myndum ársins og halaði inn hálfum milljarði dollara um allan heim, ekki slæmt. Næsti smellur hans var Jumanji árið ‘95, fjölskyldu og ævintýramynd um spil sem er ekki gott að fá lélegt spil. Ágæt mynd sem gerði það fínt, dældi inn $250m sem telst fínn árangur. The Bird Cage var hans næsta fræga mynd, þar lék hann á móti háðfuglinum Nathan Lane. Leikur Robin þá rólegan næturklúbbseiganda fyrir homma, Nathan leikur hinsvegar allt öðruvísi persónu og fer á kostum þar. Sama ár lék Robin í Jack. Hún fjallar um hinn 10 ára gamla Jack sem gefur orðinu bráðþroska nýja merkingu. Seinna tók Robin þátt í uppsetningu Kenneth Branagh’s á Hamlet, vægast sagt löng mynd! Heilar 234 mínútur og verð ég að segja að ég var ekki að fíla þessa mynd. Fyrsta myndin sem sýnir Hamlet bak og fyrir. Næstu myndir hans, Father’s Day og Flubber voru frekar leiðinlegar, sérstaklega Flubber sem náði þó mikið til yngri kynslóðarinnar.
Árið 1997 hlaut Robin þá loksins sinn verðskuldaða Óskar fyrir frábæran leik í Good Will Hunting. Fyrir þá sem vita ekki þá skrifuðu þeir félagar Ben Affleck og Matt Damon handritið að þeirri mynd og unnu Óskarinn fyrir það. Í myndinni leikur Matt Damon húsvörð, Will Hunting, sem hefur einstaka stærðfræðihæfileika. Leikur þá Robin sálfræðing sem reynir að hjálpa honum með þessa náðargáfu og lífið hjá honum. Eitt atriðið þegar Sean og Will eru á skrifstofu Seans og byrjar Robin allt í einu að tala um eiginkonu sína og mikinn vindgang sem hún hafði alltaf. Glögglega má sjá að Damon á erfitt með að einbeita sér án þess að fara að hlægja og stundum hristist myndavélin aðeins, myndatökumanninum hefur víst fundist þetta fyndið. Þetta er spuni. Í What Dreams May Come leikur Williams hann Chris Nielsen sem deyr í bílslsysi en fjölskylda hans kemst af. Chris fer til Himnaríkis og leitar þá af konu sinni en kemst að því að hún fremur sjálfsmorð útaf sorg en fer þá til helvítis. Hefst þá mikil hættuför Chris til að stöðva það. Sama ár, 1998, lék Williams í Patch Adams, mynd sem margir hata svo innilega en ég get ekki skilið það. Mér fannst þetta mjög skemmtileg og góð mynd. Robin leikur mann sem vistar sig sjálfur inn á geðveikrahæli eftir að hafa reynt að drepa sig. Adams sér með tímanum að lækningin tengist ekki lyfjum heldur hlátri. Þetta er satt, hlátur hefur einstaklega góð áhrif á sjúkdóma og hefur í sumum tilfellum læknað fólk, “Hlátur lengir lífið” eins og sagt er. Einnig er myndin byggð á sannri sögu, þessi maður var til á 8. áratugnum og beitti þessum aðferðum á sinni eigin stofu. Næstu myndir hans, Jacob the Liar og Bicentennial Man áttu eftir að valda miklum vonbrigðum hjá miðasölum en fóru ágætlega í áhorfendur, aðalega Jacob the Liar.
Eftir að hafa talað sem Dr. Voice í hinni misgóðu A.I. Artificial Intelligence, fóru hlutverkin að taka algera U-beygju. Robin Williams, heimsins mesti trúður fór að leika vonda menn, geðsjúklinga og brjálæðinga. Robin byrjaði á því að taka að sér hlutverk í Death to Smoochy. Randalf ‘Rainbow’ Smiley er landsfræg sjónvarpspersóna sem krakkarnir elska. En hann er rekinn fyrir nýjan, Smoochy, nashyrning sem Edward Norton leikur. Þetta hlutverk hans Nortons er líklega hans annað sem er í mynd sem fær mjög lélega dóma, hin er Keeping the Faith. Smiley sættir sig ekki við þetta og ætlar einfaldlega að taka Smoochy úr dæminu og ganga frá honum. En næsta mynd hans átti eftir að gera það mikið betra. Í One Hour Photo sem kom út sama ár og Death to Smoochy, 2002, lék Robin mjög einmana og geðbilaðan starfsmann hjá framköllunarfyrirtæki. Hann tekur starf sitt mjög alvarlega og gerir það eins vel og hægt er. Hann hefur fylgst með lífi fjölskyldu nokkurar og verður alltaf meir og meir háðari henni og endar með því að hann byrjar að ofsækja hana. Robin hefur fengið mjög mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda og sömu leiðis myndin sjálf þótt hún hafi ekki beint slegið í gegn um allan heim. Segir hann sjálfur að hann hafi einu sinni verið eltur að óðum aðdáenda. Næsta myndin átti eftir að verða ein besta myndin á ferli hans. Í mynd eftir Christopher Nolan, snillingnum bakvið Memento kom Insomnia ásamt goðsögninni Al Pacino. Robin leikur þar snjallan morðingja ótrúlega vel. Spái honum Óskarstilnefningu, allavega öðrum hvorum.
Það var gaman að sjá hvað Robin á eftir að leika í framtíðinni, hann á alveg örugglega eftir að gera það gott sem vondi kallinn því hann er ekki síður betri í því heldur en sem trúðurinn. Þess má einnig geta að leikarinn forfallinn netfíkill og hefur sérstaklega gaman af netleikjum, eins og Half-Life og Warcraft, hann er mjög mikið inn í þessum málum. Hann er alveg stórhneykslaður þegar hótel sem hann ferðast á eru ekki með DSL tengingu en hann segir sjálfur að eftir að hafa vanist svona miklum hraða vill maður ekki fara aftur, alveg rétt hjá honum. Þeir sem hafa séð Robin í nærmynd vita að það vantar ekki hárin á manninn, enda er hann loðinn eins og api og er gaman að segja hvernig breski hjartaknúsarinn Hugh Grant lýsti honum í kvöldþætti, loðnum. Á 9. áratugnum náði Robin að sigrast á dópneyslu sinni og um sama leyti hélt hann framhjá konu sinni með barnfóstrunni sem varð seinna umboðsmaður hans og eiginkona dagsins í dag og með henni hefur hann átt tvö börn.