Um síðustu helgi var haldið 44 klukkustunda kvikmyndamaraþon. Þeir sem stóðu á bak við þetta voru 6 einstaklingar sem saman kalla sig Bíó Reykjavík. Þeir eru Örn Einarsson, Ragga Gestsdóttir, Jakop Halldórsson, Ragnar Eyþórsson, Gio Shanger og DJ Kári. Hófst maraþonið á miðnætti föstudaginn 13. september (eða tæknilega séð hófst það þann 14.) og lauk ekki fyrr en hálf 9 á sunnudagskvöldið. Sýndar voru alls um 27 myndir og var ókeypis inn.

Ég fór þangað og sá alls 13 myndir yfir helgina. Maraþonið fór fram í upptökuveri kvikmyndaskóla Íslands í gamla sjónvarpshúsinu við Laugarveg. Aðstaðan þarna var mjög góð, stólar í bland við sófasett og massíf loftræsting þannig að þeir sem eru rettufíklar gátu hæglega kveikt sér í án þess að angra neinn. Einnig eiga þeir hrós skilið sem héldu úti veitingasölu, voru með kaffi, gosdrykki, orkudrykki, popp og jafnvel eitthvað matarkyns á afar sanngjörnu verði, þarna var alls ekki verið að reyna að græða á neinum, bara allir að hafa gaman saman.

Myndirnar sviku heldur engan. Dagskrána yfir helgina er hægt að nálgast á vefslóðinni http://pages.hosting.domaindirect.com/bioreykjavik.com/ 44hourprogram.htm
en heimasíða félagsins er www.bioreykjavik.com

Í október er einnig stefnt að því hjá þessum sama félagsskap að vera með rúmlega 27 tíma Stanley Kubrick maraþon þar sem sýndar verða 3 stuttmyndir og allar 13 löngu myndirnar hans. Það er atburður sem ég ætla ekki að missa af og þá verður sko ekkert farið heim á milli.

Ég verð að segja að mér finnst þetta frábært framtak hjá BíóReykjavík hópnum og þetta er ekki það eina sem þeir gera vel. Þeir standa einnig fyrir kvöldum einu sinni í mánuði sem þeir nefna “opið bíó”. Það þýðir að þá getur hver sem er mætt með sína stuttmynd og hún er spiluð fyrir áhorfendur. Eftir að allar myndir hafa verið sýndar er kosið um bestu mynd og sá sem á hana fær titilinn “the movie maker of the month” á heimasíðu klúbbsins. Auk þess hafa þeir sagt að snemma á næsta ári ætli þeir að vera með sérstaka óháða stuttmyndahátíð fyrir “underground” kvikmyndagerðafólk.

Það er alltaf gaman að fá fjölbreytni í kvikmyndaflóruna í Reykjavík og fyrir þá sem ekki hafa endalausa þolinmæði í garð Hollywood bullsins þá eru klúbbar eins og Film-Undur, nýi filmundur(man ekki hvað sá klúbbur heitir) og Bíó Reykjavík alveg frábærir því þeir berjast fyrir að sýna það sem annars yrði aldrei sýnt hér. Þeir eiga skilið allt hið besta og ég vona að þeir eigi eftir að lifa lengi.

Takk fyrir

p.s. kannski ég taki það fram að ég er ekki einn af meðlimum BíóReykjavík þannig að það er ekki verið að auglýsa heldur að mæla mjög mikið með…