Daredevil – The man without fear
Það virðist lítið geta stoppað teiknimyndahetju-þemað í kvikmyndum þessa daganna. Spiderman gerði allt vitlaust og núna á næstunni munum við fá að sjá myndirnar The Hulk og Batman vs. Superman. Ein vinsælasta ofurhetjan í Bandaríkjunum var þó alltaf Daredevil. Þessi blinda ofurhetja frá Marvel varð aldrei mjög sýnileg í Evrópu en öll börn í Bandaríkjunum dreymdi um að verða eins og hann
Matt Murdock er ungur munaðarleysingi sem verður fyrir því gríðarlega óhappi að rennblotna í geislavirkum úrgangi. Óhappið gerir hann staurblindan en eins og allir vita fylgir alltaf eitthvað jákvætt geislavirkum úrgangi og fara hin skilningarvitin að virka með ofurmannlegum styrk. Hann býr m.a. yfir hálfgerðum radar sem hjálpar honum að ´sjá´ betur en nokkur maður. Mörgum árum síðar hefur lukkan snúist honum í hag og hann gerst lögfræðingur í New York. En þegar hann líkur dagvinnunni tekur hann að sér að vernda borgina sem ofurhetjan Daredevil. Það gefur honum tækifæri á að berjast því óréttlæti sem hann getur ekki tekist á við í réttarsalnum. Og alltaf þegar Daredevil hefur lagt hönd á plóg skilur hann eftir sig tvö eldglóandi D á götunni.
Eins og í öllum Marvel blöðum er það illmennið Kingpin sem stjórnar glæpum í borginni. Í þessari mynd er það starfsmaður hans Bullseye sem gerir Daredevil lífið leitt.
Það er Ben Affleck sem að tekur að sér hlutverk ofurhetjunnar, Kingpin er leikinn af tröllinu Michael Clarke Duncan, Colin Farrell leikur Bullseye og hin gullfallega Elektra er leikin af Jennifer Garner. Aðrir sem vert er að nefna eru Jon Favreau, Joe Pantoliano, Coolio og Kevin Smith. Myndinni er leikstýrt af Mark Steven Johnson og verður frumsýnd hér á landi 28. febrúar 2003.