Leikstjóri: Steve Beck.
Leikarar: Tony Shalhoub, Matthew Lillard, Shannon Elizabeth…etc.
Special FX: Howard Berger…etc.
Dark Castle, sem stofnað var til að endurgera hryllingsmyndir eftir snillinginn William Castle eru hér komnir með endurgerð af 13 Ghosts eða Thirteen Ghosts. Þegar myndin kom fyrst út árið 1960 fékk fólk 3D gleraugu til að sjá draugana, þetta var það sem William Castle vildi upplifa. Til að sjá draugana þarftu að setja upp gleraugun sem voru kölluð “Illusion-O!”. Í nýju útgáfunni upplifum við svipaðan hlut nema það að leikararnir fá gleraugun, ekki við.
Dr. Cyrus, frekar ruglaður miðaldra maður sem setur takmark sitt í lífinu aðeins hærra en ég og þú deyr við eina af sínum “draugaveiðum”. Þetta þýðir að frændi hans, Arthur, erfir hús Cyrus og allt sem því fylgir. Húsið er dásamlegt, allt úr gleri með latneskri áletrun. En brátt komumst við að því að Arthur og fjölskylda hans eru ekki ein í húsinu…
Ég man vel þegar ég sá trailerinn af þessari mynd fyrst þegar hún var á leiðinni í bíó, það fyrsta sem skaust upp í hryllingssjúka hausinn á mér var “ég verð að sjá þessa”. Svo ég skaut mér beint á forsýningu. William Castle sem kom með þessa mynd fyrst er örugglega best þekktur fyrir að hafa framleitt Rosemary's Baby sem er algjör klassík.
Myndin er troðfull af skemmtilegum hljóð effectum og klippingum. Tölvutæknin er ekki ofnotuð í þessari mynd eins og oft vill vera með draugamyndir. Allt í allt er þessi mynd vel leikstýrð með ágætis leikurum, þar á meðal Fahrid Murray Abraham sem er flottur sem Cyrus. Mynd fyrir þá sem hafa gaman af smá hræðslu, og yfir höfuð hryllilegri skemmtun
Það má til gamans geta að Dark Castle gerðu einnig endurgerð af The House on Haunted Hill og nú er á leiðinni Ghost Ship frá þeim, ég bíð spenntur!
***