Það er búið að vera heldur lítið að gera á þessu áhugamáli undanfarna daga svo mér datt í hug að mæla með nokkrum heldur til óþekktum, illa fáanlegum eða “gömlum” hryllingsmyndum. Þetta eru allt myndir sem ég fíla í botn og nú með tilkomu DVD ætti að vera frekar auðvelt að komast yfir þær langflestar.

Don't Look Now (1973)
Leikstjóri: Nicolas Roeg
Aðalhlutverk: Donald Sutherland og Julie Christie.

Don't Look Now er líklegast óþekktasta klassíska hrollvekja allra tíma. Foreldrar ykkar kannast örugglega við hana þó svo þið gerið það kannski ekki. Myndin segir frá Baxter-hjónunum sem flytja til Feneyja eftir lát ungrar dóttur þeirra. Þar kynnast þau skringilegum systrum - önnur er skyggn og segist sjá dóttur þeirra. Að segja meira frá söguþræðinum mundi eyðileggja skemmtunina, en óhætt er að segja að endirinn er með þeim mögnuðustu sem sést hafa á hvíta tjaldinu. Roeg fer frjálslega með myndavélina og klippingu og hefur myndin þess vegna mjög sérkennilegt, en afskaplega fallegt, útlit. ATH! Ekki lesa mikið um þessa mynd áður en þið sjáið hana; margir gagnrýnendur skemma of mikið af óvæntu atriðum myndarinnar!

Profondo Rosso (AKA Deep Red - 1975)
Leikstjóri: Dario Argento.
Aðalhlutverk: David Hemmings og Daria Nicolodi.

Myndin sem gerði Dario Argento að súperstjörnu í heimalandi sínu. Þó svo Profondo Rosso sé á yfirborðinu lítið annað en ýkt útgáfa af hinum svokölluðu “gialli”-hryllingsmyndum sem voru vinsælar á þessum tíma, er hún svo mikið meira þegar kafað er dýpra. Breskur píanisti verður vitni að morði á konu og heldur að hann hafi sé mikilvæga vísbendingu í sambandi við málið en getur ekki munað hver hún var. Líklegast ein besta spennumynd sem gerð hefur verið og hrikalega ofbeldisfull. Afhjúpun morðingjans í lokin er fullkomin - þetta kallar maður climax!

Suspiria (1977)
Leikstjóri: Dario Argento.
Aðalhlutverk: Jessica Harper, Stefania Casini, Alida Valli og Joan Bennett.

Ef Profondo Rosso gerði Argento frægan í Ítalíu, þá kynnti Suspiria hann fyrir restinni af heiminum. Uppáhaldshrollvekja margra þekktra listamanna og ein sérkennilegasta hrollvekja sem gerð hefur verið. Bandarísk ballerína gengur í virtan evrópskan balletskóla en grunar fljótt að ekki sé allt með felldu þegar meðnemendur hennar hrynja dauðir hver á fætur öðrum. Ótrúlega fallega tekin mynd - útlitið er ólíkt öllu öðru sem þið hafið séð - með alveg hreint hrikalega háværri tónlist. Að sjá þessa mynd er eins og að upplifa óþægilega martröð.

Opera (1987)
Leikstjóri: Dario Argento.
Aðalhlutverk: Cristina Marsillach, Ian Charleston og Daria Nicolodi.

Kannski ekki ein af bestu myndum Argentos, en án efa hans ofbeldisfyllsta til þessa. Opera er myrk, drungaleg og óþægileg og MJÖG blóðug - og er ein af uppáhaldsmyndum Quentin Tarantino! Hún fjallar um unga dívu sem fær hlutverk Lafði Macbeth eftir að stjarna sýningarinnar lendir í dularfullu slysi. Bölvun Macbeth óperunnar virðist leggjast á uppfærsluna því geðsjúkur morðingi rænir dívunni og neyðir hana til að horfa á þegar hann drepur vini hennar - með því að setja nálar undir augnlokin á henni. Myndin er svo krydduð með tónlist sem er hægt að lýsa sem geðveikri (Argento blandar saman klassískri tónlist, þungarokki og venjulegri kvikmyndatónlist). Ekki fyrir alla.

Alice, Sweet Alice (1976)
Leikstjóri: Alfred Sole.
Aðalhlutverk: Paula Sheppard, Linda Miller og Jane Lowry.

Það sem hljómar í fyrstu eins og venjuleg unglingahrollvekja er í raun með óvæntari hrollvekjum sem ég hef séð. Paula Sheppard leikur Alice, unga stúlku sem á vægast sagt við ýmisleg vandamál að stríða. Þegar litla systir hennar er myrt er lögreglan fullviss um að Alice hafi framið morðið, en móðir hennar vill ekki heyra á það minnst. Þegar fleiri falla í valinn flækist fléttan og hið rétta kemur ekki í ljós fyrr en bókstaflega í síðasta ramma myndarinnar! Þó svo þessi mynd hafi aldrei orðið þekkt er hún samt þess virði að sjá; vel tekin, spennandi og mjög skemmtileg. Paula Sheppard er fullkomin í aðalhlutverkinu og algjör synd að hún skuli ekki leika lengur.


Terror Train (1980)
Leikstjóri: Roger Spottiswoode.
Aðalhlutverk: Jamie Lee Curtis og David Copperfield.

17 árum áður en kanadíski leikstjórinn Roger Spottiswoode fór að leikstýra James Bond leikstýrði hann einni af betri unglingahrollvekjum níunda áratugarins. Ég bjóst ekki við miklu af Terror Train, sem ég sá í fyrsta skiptið fyrir nokkrum vikum, en hún kom mér skemmtilega á óvart. Hún er ekkert betri handritslega séð, en myndatakan er mjög góð og Spottiswoode nær að skapa mikla spennu á lokamínútunum. Morðinginn er einnig flottur, með scary-grímur og alles.

Raising Cain (1989)
Leikstjóri: Brian De Palma
Aðalhlutverk: John Lithgow, Lolita Davidovich, Steven Bauer og Frances Sternhagen.

Svarti sauðurinn í þessari upptalningu! Það eru fáir sem fíla Raising Cain jafnmikið og ég, en ég ætla samt að mæla með henni. Líkt og Opera eftir Argento, þá er Raising Cain eins og svona De Palma-sampler; við sjáum brotabrot af öllu því sem gerir hann svona góðan, bara ekki jafngott … Hann stelur líka mjög augljóslega (eins og alltaf) frá meistara Hitchcock og reynir ekki einu sinni að hylma yfir það! Á milli allra flottu atriðanna er svo saga sem er svo fáránleg að hún er næstum því fyndin og hvarflar það að manni að þetta hafi verið útgáfa De Palma af svartri kómedíu - jafnvel paródíu á sig sjálfan. Hvað um það. Þrátt fyrir hina fjölmörgu galla Raising Cain þá er myndin samt sem áður stórskemmtileg, ótrúlega flott (lokatatriðið er með því flottasta sem ég hef séð) og oft á tíð nokkuð creepy. Ef þið eruð tilbúin til þess að horfa framhjá heimskri sögu og lélegu handriti, þá er Raising Cain tilvalin hrollvekja! Og svo er John Lithgow alveg brilliant í aðalhlutverkinu!