Afar slöpp spennumynd úr smiðju Tom Clancy, meistarans á bak við einn nettasta karakter kvikmyndasögunnar, Jack Ryan. Fyrri myndir Clancy's (þ.e. The Hunt for Red October, Patriot Games og Clear and Present Danger) eru bara með þeim betri spennumyndum sem ég hef nokkurn tímann séð, og það er nokkuð erfitt að kyngja þeirri staðreynd að þessi nýjasta, The Sum of All Fears, skuli hafa orðið svona þreytuleg. Hún þjáist bara of mikið, og á of mörgum sviðum meira að segja. Henni gengur ágætlega hvað spennuuppbyggingu varðar og flottar sprengingar eru að sjálfsögðu til staðar, en það er handritið sem er einn veikasti hlekkurinn.
Fyrst og fremst er það bara ekki nógu trúverðugt (eins og t.d. þegar æðsta stjórn bandaríkjamanna íhugar það að fara út í kjarnorkustríð, eftir að hafa ásakað þá um að hafa sent frá sér kjarnorkusprengju rétt hjá Baltimore - og vissulega færu Rússarnir allt öðruvísi að ef þeir hefðu náttúrulega ætlað sér að fara í stríð við bandaríkin…semsagt afar klauflega úthugsað - m.a.s. var mér sagt að myndin væri ekki neitt eins og bókin) og á köflum fer það út í svo mikla vitleysu.
Söguþráðurinn (sem minnir á köflum mjög mikið á Thirteen Days) er heldur ekki neitt sérlega áhugaverður, heldur er hann bara ruglingslegur og vægast sagt ómerkilegur. Og til að kóróna allt hefur Ben Affleck endilega þurft að hafa verið valinn í hlutverk Ryans (sem er einn traustasti karakter sem lifir í kvikmyndasögunni). Affleck er alls ekki lélegur leikari (hann var t.d. fínn í Dogma og Good Will Hunting), en án nokkurs vafa er hann rangi maðurinn í hlutverkið og maður getur ekki annað en hugsað sér hversu betur einhver annar hefði staðið þig í því.
En annars er enginn tilgangur í því að kvarta þegar leikhópinn er um að ræða, þar sem að hér eru fjölmarga gæðaleikara að finna, þ.á.m. Morgan Freeman (alltaf jafn vannýttur núorðið, eins og t.d. með Along Came a Spider og High Crimes), James Cromwell, Ron Rifkin, Phillip Baker Hall, Alan Bates og m.a.s. Liev Schrieber (stórfínn sem John Clark (karakter sem var áður fyrr leikinn af Willem Dafoe)); Þeir sjá allir vel til þess að koma Affleck útaf kortinu.
Svo skil ég heldur bara ekki hvers vegna í ósköpunum ákveðið var að yngja Ryan sjálfan (mér skilst nú að Ford gamli hafi heimtað of mikið). The Sum of All Fears gerist eftir viðburðu þriðju myndarinnar (nánar til tekið á árinu 2002), halló?! Þetta bara passar ekki, og þar að auki finnst mér þetta einhvern veginn hafa skemmt karakterinn fyrir mér (það er sjálfsagt líka Affleck að þakka…). Framleiðendurnir hafa sjálfsagt haldið að enginn færi að spá í slíku, en nóg um það.
The Sum of All Fears er nú svosem ekkert slæm spennumynd en hún er voða slök, og fyrir mér er hún töluverð vonbrigði og bara bókstafleg eyðilegging á sögupersónunni sjálfri. Best væri bara að sleppa þessari þar til að vídeó-útgáfan kemur.
**/****