Hmmm. Ég veit ekki alveg hvað skal segja. Kannski bara byrja á byrjuninni. Kvikmyndin The Exorcist er álitin af mörgum sem besta hryllingsmynd sem hefur verið sett á filmu, ég er ekki alveg svo hrifinn af henni en samt nóg til þess að hún fái fullt hús stjarna (). Myndin varð mjög vinsæl, fékk tíu óskarstilnefningar(fékk tvö verðlaun) og varð mjög umdeild útaf viðbrögðum gesta í kvikmyndahúsum sem sáu myndina. Fjögur ár liðu, tugir eftirherma komu og fóru og loks kom myndin Exorcist II: The Heretic, mynd sem var svo léleg að áhorfendur sýndu sömu viðbrögð og útaf Exorcist, bara ekki af sömu ástæðum. Lítið heyrðist um Exorcist í kvikmyndaheiminum í langan tíma, aðeins orðrómar um að nýja bókin hans William Peter Blatty mundi verða kvikmynduð.
Það gerðist svo árið 1990, William Peter Blatty var víst aldrei ánægður með kvikmyndina The Exorcist svo hann skrifaði aðra bók Legion sem gerðist 15 árum eftir atburðina í fyrri bók hans. Hann vildi hafa þetta allt á hreinu svo hann leikstýrði nýju myndinni og skrifaði handritið bara sjálfur, þessi mynd skildi sko heppnast. Hún heppnaðist ekkert alltof vel. Flestir sem höfðu séð The Heretic höfðu engan áhuga á að sjá aðra svoleiðis mynd svo að The Exorcist III aka William Peter Blatty's The Exorcist III aka The Exorcist III: Legion sigldi í gegnum bíóin og videóleigurnar næstum óséð.
En af einstakri tilviljun sá ég eintak af myndinni á hillum myndabandaleigu hér í kópavoginum. Ég var ekki viss hvort ég ætti að hætta á það en þar sem þetta var gömul spóla sem fylgdi með skellti ég mér á hana.
Myndin gerist fimmtán árum eftir The Exorcist og fjallar um lögreglumanninn William ‘Bill’ Kinderman (George C. Scott!) sem er að rannsaka morðmál. Einhver virðist vera að herma eftir morðingjanum “The Gemini Killer” sem var líflátinn í rafmagnsstól fyrir mörgum árum. Rannsóknin leiðir Bill á sjúkrahús sem er einnig geðveikrahæli og þar rekst hann á góðkunningja okkar Damien Karras (Jason Miller) sem einsog flestir vita dó í endanum á The Exorcist. Ef ég skildi þetta allt rétt þá var þetta ekki í alvöru hann heldur morðinginn sem var líflátinn sem annaðhvort leit út einsog Brad Dourif eða fór inn í þann sem Brad Dourif leikur.
Tvær persónur eru í þessari og líka The Exorcist. Damien Karras er auðvitað augljósast, þó að það sé í raun ekkert alltof augljóst þar sem það er varla hægt að sjá framan í hann fyrir myrkvi og lögreglumaðurinn William Kinderman, hann var leikinn af Lee J. Cobb í Exorcist.
Það var eitthvað við Exorcist III sem mér líkaði ekki. Hún var frekar langdreginn og á köflum hreinlega leiðinleg. Handritið er ekkert alltof góð og sagan flókinn, ég skildi ekki allt sem var í gangi(kannski ég hafi ekki fylgst með nógu vel?). Leikurinn er eiginlega það sem heldur myndinni uppi. Ég held mikið uppá George C. Scott og auðvitað Brad Dourif (Chucky úr Child’s Play myndunum) svo að ég er kannski svolítið hlutdrægur. Hún fær reyndar aukastig fyrir að vera engan veginn eins léleg og The Heretic.
Ég mæli með að fólk kíki á hana ef það er voða spennt fyrir Exorcist 4:1 sem kemur á næsta ári en annars er best að láta hana vera.
sbs : 21/07/2002
<a href="http://www.sbs.is/critic/kvikmynd.asp?nr=61">Meira á sbs.is</a