Poltergeist 3 Poltergeist er ein besta draugamynd sem komið hefur út. Hún er vel gerð í alla staði, handritið, leikstjórnin, leikurinn og allt það. En svo komu framhöldin, Poltergeist II: The Other Side, sem að mér þótti ágætist hryllingsmynd en ekkert sérstök samt og svo Poltergeist III sem flestir telja hið argasta rusl. Mér fannst hún aðeins betri en rusl en ekkert alltof mikið samt. Ég gæti trúað því að heimurinn hefði gleymt tilveru framhaldanna ef að hin svokallaða “Poltergeist Bölvun” hefði ekki komið upp. En hún er byggð á því að við enda tökum hverjar myndar hefur að minnsta kosti einn af leikurunum dáið.

Poltergeist III tengist hinum myndunum lítið, svo lítið að mig grunar að handritshöfundarnir hafi komið með hugmynd að draugamynd sem gerist í háhýsi og eitthver framleiðandinn hefur sagt, “já, höfum þetta framhald af Poltergeist!”.

En það skiptir ekki máli.

Allaveganna fjallar Poltergeist III um litla stelpu, Carol Anne (Heather O'Rourke). Hún er mjög gáfuð og sæt en það er eitt vandamál sem fylgir henni; ærsladraugar. Foreldrar hennar hafa gefist upp á henni og nú er hún hjá frænda sínum og frænku, Bruce og Patricia Gardner (Tom Skerritt og Nancy Allen), þau eiga sjálf dóttur Donnu (Lara Flynn Boyle) og er Patricia ekkert alltof hrifinn af Carol Anne. Sérstaklega ekki þegar skrítnir hlutir fara að gerast í háhýsinu sem þau búa í. Hitastig lækkar, draugar sjást í speglum, fólk dettur ofan í polla og kemur upp úr holum í sundlaugum alþakið slími og fleira vesen.

Sá sem er að valda þessu er góðvinur okkar Kane, nú leikinn af Nathan Davis því að Julian Beck dó við tökur Poltergeist II. Kane er enn á eftir Carol Anne og er að reyna að ná henni inn í spegla. En heppnin er með Carol Anne og litla konan hún Tangina Barrons (Zelda Rubinstein) hjálpar henni að berjast gegn þessum óvætti.

Poltergeist III er haldin uppi af þeim fáu góðu leikurum sem eru í henni. Tom Skerrit er alltaf góður. Nancy Allen er ágæt sem eigingjarna frænkan. Zelda Rubinstein er ekki eins góð og hún var sem Tangina en samt fín. Lara Flynn Boyle er ágæt leikkona og gerir það sem hún getur með hlutverkið sem hún fékk (hef ég sagt þetta áður?). Heather O’Rourke er góð sem Carol Anne og helvíti spúkí sem illa útgáfan af henni.

Poltergeist III markaði endalok Poltergeist seríunnar, ætli nokkur leikari hafi þorað að koma fram í númer fjögur sem var lengi í framleiðslu? En miðað við hvernig gæði myndanna hrakaði í hverju framhaldi er kannski bara gott og blessað að það kom ekki framhald, ég efast allaveganna um að Poltergeist IV hefði verið mannslífsins virði, ekki var Poltergeist III það.

<a href="http://www.sbs.is/critic/kvikmynd.asp?nr=63">Meira á sbs.is</a