Jæja, hvað fannst svo Hugum um Men in Black II?
Persónulega bjóst ég alls ekki við miklu. Ég fór á fyrri myndina í júní 1997 (heil fimm ár síðan!) á alheimsforsýningu, klæddur í svört jakkaföt og svaka fínn, og skemmti mér konunglega. Þó er álit mitt á fyrri myndinni mengað af alveg hreint frábærri stemningu sem myndaðist í salnum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef farið í bíó þar sem salurinn klappaði oft og mörgum sinnum, hló að hverjum einasta brandara og virtist dýrka hverja einustu mínútu.
Stemningin í FM sýningunni í gær var ekki jafngóð, en ágæt samt og bætti upp ýmsa galla myndarinnar. Myndin er mjög stutt (88 mín.) og er full af holum og ýmsar hugmyndir eru ekki nógu vel útfærðar, en hún er alveg meiriháttar skemmtun. Hröð, fyndin og flott. Eins og góðum fyrrverandi tökumanni sæmir, er Barry Sonnenfeld snillingur í því að skapa eftirminnileg sjónræn andartök og er mun meira af þeim í þessu framhaldi en í forveranum. Þetta minnir svolítið á muninn á Addams Family myndunum tveimur sem Sonnenfeld gerði, enda er sú seinni, Addams Family Values, mun flottari og fyndnari (og betur skrifuð) en fyrri myndin. Að segja að MIIB sé betri en MIB er kannski of mikið af hinu góða, en hún er alveg jafnskemmtileg og lífleg og svo er alltaf gaman að horfa á Löru Flynn Boyle með tónlist eftir Danny Elfman í bakgrunni! :)