Se7en Ofát. Græðgi. Leti. Öfund. Reiði. Stolt. Losti.

Af þeim myndum sem David Fincher hefur gert er þetta án efa sú besta. Það er allt svo vel heppnað í þessari mynd. Ég var ekki að horfa á hana í fyrsta sinn í kvöld en samt var ég alveg eins og þegar ég sá hana fyrst. Allt spilar saman í þessari mynd, leikurinn er frábær, tónlistin passar alveg við myndina og umhverfið, persónurnar frábærar og magnþrungin spenna í lofinu. Þeir Morgan Freeman og Brad Pitt eru hreint frábærir í hlutverkum sínum. Atriðin verða þó á köflum frekar ljót en samt eru þau bráðnauðsynleg en eru því ekki fyrir hvaða áhorfendur sem er. Í þessari grein mun ég fjalla um ýmis atriði og persónur, þannig að þeir sem hafa ekki séð þessa mynd og vilja ekki ‘spoilast’ ættu ekki að lesa lengra og drífa sig á næstu leigu og leigja myndina!

William Somerset (Freeman) er varðstjóri í New York og er búinn að fá nóg af þessu skítaumhverfi og hyggst hann á að fara á eftirlaun eftir nokkra daga. David Mills (Pitt) er í sama starfi og nýfluttur þangað til NY, óvanur þessu umhverfi. Somerset ætlar að vera með Mills í nokkra daga til að koma honum fyrir í þessu. Þá einn daginn kemur óvenjulegt morðmál og er það byrjunin að dauðasyndunum sjö. Somerset ákveður að fresta aðeins eftirlaununum og vera aðeins lengur á morðdeild með Mills og reyna að leysa þessi dularfullu morðmál varðandi dauðasyndirnar sjö.

Með þessari mynd náði David Fincher að festa sig almennilega fastan á kortið. Það er eitthvað við Fincher, hann er undrabarn rétt eins og Tiger Woods er í golfi Fincher var ekki hættur, tveimur árum seinna fylgdi The Game með Michale Douglas. Ég var reyndar ekki alveg að fíla hana, en samt. Öðrum tveimur árum seinna kom Fight Club, með Brad Pitt líka. Frábær mynd en nær ekki hæðum Se7en á nokkurn hátt. Myndatakan er allaf svo sérstök hjá Fincher, þeir sem hafa séð Panic Room vita hvað ég á við. En þó verð ég sérstaklega að hrósa þeim Morgan Freeman og Brad Pitt fyrir magnaða frammistöðu. Pitt sannar það enn og aftur að hann er ekki bara ‘pretty-boy’ heldur getur hann vel leikið. Hann Freeman, það þarf ekki að kynna hann. Freeman er meistari og leikur hann sér að þessu hlutverki, hann er einfaldlega skapaður til að leika gáfaðar lögreglur.

Shakespeare In Love, leiðinleg mynd ekki satt? Samt fékk hún Óskarinn sem besta myndin. Judi Dench fékk Óskarinn fyrir hlutverk sitt sem Elizabeth í myndinni. Þeir sem vita það ekki þá var þetta nú ekki langt hlutverk hjá henni, heilar átta mínútur! Og fyrir það fékk hún Óskarinn. Fyrst að hún gat unnið þessi verðlaun þá finnst mér að hann Kevin Spacey hefði allavega átt að fá tilnefningu fyrir hlutverk sitt sem John Doe. Reyndar hann var nú tilnefndur fyrir leik sinn í The Usual Suspects og fékk reyndar líka Óskarinn, ekki var það nú lélegur leikur þar. Ég fékk hroll á köflum í Se7en, þvílíkur snillingur er þessi maður. Hann minnti mig stundum á Hannibal Lecter. Þetta hlutverk Spaceys er eitt af hans bestu.

Nú verð ég að tala um endirinn. Þetta er einn besti endir sem ég hef séð. Sumir voru örugglega efasamir varðandi myndina þegar Spacey gaf sig fram á lögreglustöðinni þegar syndirnar tvær, Öfund og Reiði voru eftir en þeir hafa sko skipt um skoðun þegar endirinn leið á. Að drepa konu Mills því John öfundaði Mills og nota svo síðustu syndina á Mills, Reiði, til þess að láta Mills drepa sig. Snilld. Se7en er langbesti tryllir sem sést síðan Silence of the Lambs ‘91. Verð ég að viðurkenna að mér finnst Se7en jafngóð ef ekki betri en Silence of the Lambs. DVD diskurinn er einnig mjög góður. Þá er ég reyndar ekki að tala um þennan sem fæst hérna á Íslandi heldur ‘Seven – New Platnium Lines’ sem fæst að utan. Tveir diskar og mikið um aukaefni, þ.ám. annar endir (sem er eiginlega ekkert öðruvísi) og margt margt fleira skemmtilegt.


****