Scooby-Doo (2002) Fyrir aftan mig, í sal í kvikmyndahúsi sem ég ætla ekki að nefna, sat hópur fólks, fimm eða sex manns, og þau virtust geta hlegið endalaust af kvikmyndinni Scooby-Doo. Hvað sem gerðist á skjánum, í hvert skipti sem Scooby sagði eitthvað með R í byrjun (Ramburgers!), þau hlógu, í hvert skipti sem Daphne talaði um hve sjálfstæð hún var orðinn, þau hlógu, í hvert skipti sem Vilma setti upp fýlusvip, þau hlógu, í hvert skipti sem Fred leit í spegill, þau hlógu, í hvert einasta skipti sem Shaggy geiflaði sig í framan eða ropaði, já þið megið sko trúa því að þau hlógu. Ég fór aðeins að spá og spökulera í þessu og fékk út tveir niðurstöður. Þau hljóta annaðhvort að hafa þann hæfileika að geta slökkt á allri skynsemi og tekið myndinni einsog sex ára barn mundi eða, sem ég tel vera líklegra, þau hafa verið blindfull eða á einhverjum mjög sterkum lyfjum.

En ég gat bara ekki hlegið af kvikmyndinni Scooby-Doo. Það er ekki það að ég er á móti kvikmyndum sem gerðar eru eftir teiknimyndum, ég er einn af þeim fáu sem fannst The Flintstones skemmtileg! En það er eitthvað við þennan hundspotta sem ég skil ekki. Ég hef lítið gaman af teiknimyndaþáttunum, fjórir uppdópaðir hippar og hundur að eltast við drauga er ekki alveg það sem ég hef gaman af. En ég get ekki sagt að ég hafi aldrei séð heilan þátt, Cartoon Network hefur séð til þess að ég hafi séð nokkra en þeir virðast hver öðrum líkari, formúlan fyrir þá er strangari en formúlan fyrir James Bond(sjá Goldfinger). Mystery Inc. hópurinn fer til að rannsaka dularfulla yfirnátturulega hluti sem leiðir til mikla hlaupa og skella en í endanum finna þau aðaldrauginn, taka af honum grímuna og undir er oftast gamall maður sem kallar “and I would have gotten a way with it if it hadn’t been for you pesky kids” og loks útskýrir Velma fyrir öllum hvernig þetta var allt gert á vísindalegan hátt. Kvikmyndin fer næstum því eftir þessu nema að þeir urðu að sýna hver þessar 52 milljónir dala fóru svo þeir gera skrímsli í tölvu og hafa þau eru ekta!

En söguþráðurinn er annars eftir reglum. Fyrrum meðlimir í Mystery Inc.; Fred (Freddie Prinze Jr.), Shaggy (Matthew Lillard), Daphne (Sarah Michelle Gellar), Velma (Linda Cardellini), og Scooby (CGI vera með rödd eftir Scott Innes), eru fenginn til að fara í draugalegan skemmtigarð sem er í eigu herra Mondavarious (Rowan Atkinson) og er á miðri eyju. Þar er allt að á haus, skrímsli koma á kvöldin og stela líkömum fólks, sálirnar(eða eitthvað svoleiðis) fara í stóra skál. Það er svolítið skrítið með þessar sálir, andlitin(þó hryllilega illa gerð) fylgja með þeim og líka röddin!

Kvikmyndin Scooby-Doo á við mörg vandamál að stríða. Aðallega tölvugerðu verurnar og hundarnir tveir, í Jurassic Park virtust risaeðlurnar vera raunverulegar, tíu árum síðar virðast tölvusérfræðingarnir eiga erfitt með að gera hund sem virðist raunverulegur. Kannski var það ætlun leikstjórans Raja Gosnell að hafa þetta allt voða óraunverulegt, svona til að hræða ekki litlu börnin. Hver veit. Flestir leikararnir eru ekkert alltof góðir heldur, Sarah Michelle Gellar og Rowan Atkinson eru bara einsog þau eru alltaf. Eitthver gagnrýnandinn nefndi það að þetta færi fullkomið hlutverk fyrir Freddie Prinze Jr., hann leikur alltaf mjög flata persónu, núna leikur hann flata teiknimyndapersónu. Matthew Lillard, sem ég mundi segja að væri hæfileikar ríkastur af ‘Mystery Inc.’ genginu er fínn, hann er alveg einsog Shaggy var í teiknimyndunum, röddin og allt. Scooby fær þann heiður að vera lélegasta tölvugerða persónan í kvikmynd með 50+ milljón dollara fjármagn.

Scooby-Doo er kannski ekki hræðilega léleg kvikmynd en hún er það næstum. Hún bíður uppá brandara sem eru ekki fyndnir, söguþráð sem ‘meikar ekki sense’ og persónur sem ekki er hægt að hafa áhuga á. En það stoppar hana ekki, hún kostaði 52 milljónir en hefur þegar grætt um 120, framhald er á leiðinni!

<a href="http://www.sbs.is/critic/kvikmynd.asp?nr=54">Meira á sbs.is</a>

sbs : 05/06/2002