Bandits (2001) <a href="http://www.sbs.is/critic/movie.asp?Nafn=Bandits ">www.sbs.is</a>

**1/2

Barry Levinson hefur gert margar kvikmyndir. Margar þeirra hafa verið frábærar, Good Morning, Vietnam (1987), Rain Man (1988), Wag the Dog (1997) og margar hafa verið mjög lélegar, Toys (1992), Jimmy Hollywood (1994). Það er aldrei hægt að vita hvað maður á von á. Nýjasta myndin hans, Bandits, fellur í hvorugan flokkinn sem ég nefndi hér fyrir ofan, hún er hvorki alslæm né mjög góð. Levinson er hér vopnaður þekktum nöfnum í aðalhlutverkunum, Bruce Willis, Billy Bob Thornton og Cate Blanchett, það er í raun þau sem halda myndinni hans uppi. Söguþráðurinn er frekar þunnur og reynir oft á greind áhorfandans.

Bandits segir sögu tveggja bófa sem hafa báðir lélegar hárkollur, Joe (Bruce Willis) og Terry (Billy Bob Thornton), þeir eru víst farsælustu bankaræningjar í sögu Bandaríkjanna! Joe og Terry kynntust í fangelsi þegar Terry hélt sig vera að fá botnlangakast, eða svo segir Joe. Einn daginn er verið að vinna eitthvað í fangelsinu og stór sement bíll er fyrir utan. Joe notar auðvitað tækifærið og sest undir stýrið á meðan að Terry heldur athygli allra með að tala um hljóðin í hausnum á sér. Þeir ná svo að keyra burt í rólegheitunum. En þeim vantar peninga og það er bara ein leið til þess, ræna banka. Joe á þann draum að opna skemmtistað í Mexíkó og til þess þarf mikinn pening svo þeir fara að skipuleggja banka rán. Terry fær þá hugmynd að fara til bankastjóranna á kvöldin, gista hjá þeim og fara svo með þá(og fjölskyldu þeirra) snemma næsta morgun til að tæma alla peninga úr bankanum. Allt gengur vel þar til að Kate (Cate Blanchett) keyrir óvart á Terry. Kate er leið húsmóðir og finnst það hin fínasta hugmynd að vera gísl hjá “the sleepover banditst” einsog Joe og Terry hafa verið kallaðir í fréttunum. Hún fer að hjálpa þeim í ránunum og endar svo í að eiga í sambandi við fyrst Joe og svo Terry.

Einsog ég sagði áðan halda leikararnir myndinni uppi. Bruce Willis er pottþéttur einsog alltaf. Cate Blachett er mjög góð en Billy Bob er aðalparturinn. Persónan hans er alveg mögnuð. Terry er taugasjúklingur með mjólkurónæmi, suð í eyranu og hefur óstjórnalega fælni við fornhúsgögn(þetta seinasta á reyndar við Billy Bob líka, hann fær taugaáfall þegar hann fer inní hús sem inniheldur fornhúsgögn). Hann á líka heiðurinn af þeim fáu atriðum sem virka vel í myndinni. Ég hló mjög í einu atriðinu, þá var hann og Joe heima hjá fyrsta bankastjóranum. Þeir, bankastjórinn og fjölskylda hans sitja saman yfir kvöldverð, allir að bíða með spennu eftir að kvöldið líði og morguninn kemur. Kona bankastjórans getur ekki haldið tilfinningunum aftur og grætur og grætur á meðan er Terry að reyna að finna út hvað hún setti eiginlega í sósuna, sem er mjög góð(tómatur, börkur af sítrónu og fleira). Þegar hann fattar það loksins gefur hann henni það ráð að setja pínu sykur útí, svona til að taka aðeins súra bragðið.

Þetta er svo sem fín hugmynd að sögu en Levinson getur ekki alveg ákveðið hvernig kvikmynd sagan á að verða. Hann reynir að koma gríni, dramatík, satíra og svo spennu. Hann reynir líka um og of að gera myndina ‘öðruvísi’. Það eru ótal endurhvörf fram og aftur í tímann. Við eigum að hafa vitað endirinn í byrjuninni en svo er reynt að flippa aðeins til og breyta öllu sem við höfum heyrt og séð. Endirinn reynist vera mjög útreiknanlegur þó að Barry hafi hent öllu á skjáinn sem hefði getað sagt okkur annað. Áhorfandinn er kannski aðeins skemmt en gleymir því fljótt því Bandits skilur lítið sem ekkert eftir sér.

sbs : 20/06/2002