Children of the Corn V: Fields of Terror (1998)
Maður skelfur bara inn að beinum
Árið 1978 gaf rithöfundurinn Stephen King út smásagnasafnið ‘Night Shift’. Þar voru tuttugu misgóðar smásögur, flestar góðar reyndar. Miðað við allar bækurnar og smásagnasöfnin sem King hefur gefið út og hvað margar þeirra hafa verið gerðar að kvikmyndum þá er þetta varla frásögu færandi en það sem er sérstakt við þessa bók er að útaf þessum tuttugu smásögum hafa komið tuttugu og ein kvikmynd! Þær eru The Woman in the Room ‘83, Cat's Eye ’85, Maximum Overdrive ‘86, Graveyard Shift ‘90, Sometimes They Come Back ’91 (plús 2 framhöld), The Lawnmower Man ’92 (King lét taka nafn sitt af henni), The Boogeyman ‘95, The Mangler ’95 (plús framhald), Trucks ’97, Strawberry Spring ’01 og svo myndin sem leiddi af sér flest framhöldin Children of the Corn ’84. Hún varð vinsæl og hafa í dag komið sex framhöld og það er næstum öruggt að þau verða fleiri.
Það er næstum ótrúlegt að sjö myndir hafi komið útaf einni smásögu sem rétt fyllti tuttugu og níu blaðsíður í kilju. En ástæðan fyrir því að það er hægt að gera svona margar myndir útfrá þessari litlu sögu er sú að allar kvikmyndirnar eru nánast sömu myndirnar. Eina sem breytist eru nöfnin á leikurunum og persónunum. Í hverri mynd lenda einhverjir, oftast kona og maður, í því að verða bensínlaus, að bíllinn bili eða hafa keypt hús á mjög góðum kjörum rétt hjá eða í litlum afskektum bæ þar sem fólk eldra en 18 á það til að deyja á voða subbulegan hátt.
Fimmta Children of the Corn myndin, með undirtitillinn “Field Of Terror” byrjar á korn akri, þar er lítill strákur sem heitir Ezekiel(hvaða foreldri skýrir barnið sitt Ezekiel?). Allt í einu byrjar eldur að stökkva upp frá akrinum inní Ezekiel og augu hans glóa, þau eru græn! Ári seinna eru þrjú pör á rúntinum með ösku látins vinar þeirra sem dó í hryllilegu slysi. Eitt parið, Laslo og Charlotte keyrir á undan og skilja eftir upplásnar dúkkur út um allt. Á meðan að Laslo er að hengja eina dúkkuna upp fer Charlotte í göngutúr, auðvitað skellir hún sér útá akurinn sem er þarna nálægt. Þar hittir hún vini Ezekiel, óþarfi er að segja hvað gerist fyrir hana og Laslo sem leitar að henni á akrinum. Hin pörin fylgja á eftir þeim og keyra útaf veginum. Þau rekast á ‘börn kornsins’ og njóta þeirra örlaga sem það fylgir en ein af þeim Alison, veit allt um ‘þann sem gengur bakvið raðirnar’, því að bróðir hennar er í þessum skemmtilega sértrúarsöfnuði.
Ég veit ekki hvenær fólk skilur það loksins að allur kraftur er farinn úr þessum myndum. Reyndar voru fyrstu myndirnar ekki svo kraftmiklar til að byrja með. Sú fyrsta var ágæt en hinar lélegar og flestar kópering af hver annarri. Þetta er nákvæmlega það sama og að taka mynd og kópera hana, afritið verður aldrei eins góð og upprunnalega eintakið, hvað þá þegar þú kóperar afritið og svo koll af kolli. Hvernig getur fimmta afritið verið eitthvað annað en rusl?
En það er ekki bara söguþráðurinn sem er hættur að virka. Það er ekki neitt í myndinni sem dregur hana upp úr svaðinu. Ethan Wiley leikstýrir henni einsog tónlistarmyndbandi, það eru atriði í myndinni sem eru tekin með 90 gráðu halla, alveg satt! Leikararnir eru ekki mikið betri. Ég hafði reyndar gaman að sjá Alexis Arquette, fyrir þá sem ekki vita er hann bróðir David Arquette, Patricia Arquette og Rosanna Arquette, hann lék líka Damien í Bride of Chucky. Það var líka gaman að sjá David Carradine þó að hann sé ekki eins góður og hann getur verið.
Ég hef núna séð 5 Children of the Corn myndir. Ég ætla ekki að sjá 6 og 7 og ég get í rauninni ekki mælt með neinni af þeim. Ef þið viljið sjá draugalega krakka mæli ég frekar með Village of the Damned (1960), Village of the Damned (1995) eða Omen, The (1976).
sbs : 18.06.2002