Cloud Atlas - Larger Than Life

Það er ekki beint hægt að koma með staðreynd þegar kemur að skoðunum á kvikmyndum en ég efast um að það séu margir sem mundu neita því að Cloud Atlas er ein metnaðarfyllsta mynd sem hefur komið út í mörg, mörg ár, og eftir því sem les meira um þessa mynd, því sterkari verður sú skoðun. Allt sem gerist á skjánum er sýnt góða umhyggju, en þegar maður fer líta á hluti eins og hvernig myndin er sett upp, hversu rosalega fjölbreytileg hún er,  að hún er byggð á bók sem var talin af mörgum vera ómögulegt að gera kvikmynd úr og síðan sú staðreynd að það eru þrír leikstjórar á bak við hana, þá fer maður að fíla hana ennþá meira.

Síðan kvikmyndin var frumsýnd í kvikmyndahátíðinni í Toronto þá hefur hún verið að fá mjög misjafna dóma, ekki ósvipað The Tree Of Life árið 2011, enda eru báðar myndir verulega einkennilegar þegar kemur að strúktúrnum og efnisinnihaldi. Ef byrjunin nær ekki að heilla mann, þá eru miklar líkur á því að restin eigi ekki eftir að bæta úr því. Þetta er mynd sem er jafnauðvelt að elska og hata, og nota fólk svipaðar ástæður fyrir þeirri skoðun. Þetta er ekki auðgleymt mynd, langt frá því, og sama hvernig álit manns á henni er þá er ekki hægt að neita því að ekkert líkt þessu hefur nokkurn tímann verið gert.
Myndin er sex sögur sem gerast á mismunandi tíma, eru mismunandi kvikmyndageiri og hafa ólíkan tón en tengjast mikið á milli sín. Sögurnar eru peródíumynd sem gerist á sjónum á 19. öld, rómantík (í báðum skilgreiningum orðsins) á 4. áratug síðustu aldar, 70‘s þriller, bresk gamanmynd (sem hefur góðan skerf af svörtum húmor), vísindaskáldskapur í framtíðinni og fantasía sem gerist eftir heimsendi. Ekki nóg með það að myndin er sex ólíkar sögur (sem er nógu áhættusamt nú þegar), þá er strúktúrinn líka mjög brothættur. Hann er eins og blanda af Magnolia og The Fountain. Engin ein saga er sögð fyrst, kláruð og farið síðn í næstu, heldur er myndin sískiptandi á milli saganna. Þar að auki fylgir myndin sama fólkinu endurfætt. Það er sýnt bæði með fæðingarblett sem fylgir aðalkarakteri hverjar sögu og að leikararnir í myndinni leika í flestum (sumir öllum) sögunum.

Sem betur fer vita leikstjórarnir hvað þau er að gera því þetta hefði auðveldlega getað orðið að óeinbeittu rugli. Þrátt fyrir að sögurnar séu misathyglisverðar þá er myndin sjaldan óáhugaverð og myndin flæðir fáranlega vel fyrir mynd sem er næstum því þrír tímar. Henni tekst það með því að vera aldrei of lengi í hverri sögu, skipta stundum ört á milli í spennumiklum atriðum og halda áhorfandanum alltaf forvitnum hvað mun gera næst. Með því að gera þetta svona virðast sögurnar  vera lengri heldur en í kringum hálftíma. Klippingin er eitt af því besta við þessa mynd, því að er ekkert grín að skipta á milli svona ólíkra mynda, bæði þegar kemur að geira og tón. Margar af þessum skiptingum eru líka vel úthugsaðar, annaðhvort með setningum sem tengjast vel við báðar sögurnar eða að svipaðir hlutir eru að gerast í mismunandi sögum, t.d. spennuatriði.

Með því að blanda saman geirum þá nær hún líka að vera fjölbreytileg í tóni sínum. Hún er skemmtileg, fyndin, sorgleg, spennandi allan tímann og maður finnur aldrei fyrir því að myndin er ójöfn í  skiptingu sinni. Hérna má þakka leikstjórunum þremur, Wachowski-systkinin og Tom Tywker. Fyrir mér hafa þessir leikstjórar aldrei sýnt eins vönduð vinnubrögð og þau hafa aldrei gert betri mynd. Eins elskaðar og myndir eins og The Matrix og V For Vendetta eru, þá er þetta hápunktur systkinanna og það verður erfitt fyrir þessa leikstjóra að toppa þetta.

Tæknilegu hliðar myndarinnar eru góðar. Kvikmyndatakan nær að sýna fegurðina í hverri sögu og er dásamlega kyrrari í hasarnum heldur en flestar hasarmyndir nú til dags. Tónlistin er falleg, vel skrifuð og fjölbreytileg. Ég legg sterka áherslu á fjölbreytileg því hún breytist á milli saga og er þar að auki samin af þremur einstaklingum (þar á meðal einn af leikstjórunum, Tom Tywker). Tölvubrellurnar koma vel út og lítur sérstaklega vel í sci-fi- sögunni og það er ekkert sparað í framleiðslu við listrænu stjórnina. Förðunin (notað er bæði raunveruleg og tölvubrellur) er samt sem áður sá hluti sem fólk mun tala mest um þegar kemur að tæknilegu hliðunum. Ég hef heyrt misgóða hluti um hversu góð hún er en mér fannst hún vera góð og þýðingarmikil. Fyrir utan nokkra karaktera þar sem það tekur smátíma að venjast honum með þessa förðun þá fannst mér hún ná að vera góða blanda af því að vera raunhæf og sýna áhorfandanum hver er á bak við förðunina svo tengingin við þann karakter og örkina hans yfir sögurnar glatast ekki. Ég mæli vel með að bíða aðeins eftir að kreditlistann kemur til að sjá hvaða leikarar voru hverjir, það eru áreiðanlega einhver cameo sem fóru framhjá mörgum.

Leikurinn þarf líka að tala um, en margir af þessum leikurum hafa sjaldnar verið betri og enginn er ekki góður. Það segir sitt miðað við að það eru þrettán leikarar í myndinni sem hafa að minnsta kosti þrjú hlutverk og fimm sem hafa sex hlutverk, cameo innifalin (Tom Hanks, Halle Berry, Hugo Weaving, Jim Sturgess og Hugh Grant). Karakterarnir eru fjölbreyttir og eitt af því áhugaverðasta við myndina er að sjá muninn á leikurunum eftir hverja sögu. Sumir byrja sem slæmir en verða betri þegar líður að myndinni, sumir byrja slæmir og verða verri, hlutir eins og valdastaða, aldur, kynþáttur, kyn breytast og það eru fullt tengingum á  milli saganna. Eitt af því sem er mest notað er að allir aðalkarakterar hverjar sögu lesa eitthvað eftir aðalkarakter fyrri sögunnar. Þar að auki eru fullt af öðrum teningum sem lætur fjöláhorf fá ennþá stærri ástæðu. Margar af tengingunum eru vel útpældar. Samskipti á milli tveggja leikara þróast á milli tímabils, og sömuleiðis þemur þeirra. Það eru samt sem áður fyrir nokkur atvik sem eru ekki útpæld. Zhou Xun leikur til dæmis tvö hlutverk í þriðju sögunni og tímamunurinn á þriðju og fjórðu sögunni er of lítill fyrir suma karaktera miðað við að myndin á að fjalla um endurfæðingu (sérstaklega Hugh Grant). Ef ég þarf að velja hverjir mér fannst standa sig best í myndinni þá mundi það vera Tom Hanks, Halle Berry, Doona Bae, Jim Broadbent, Ben Whishaw og James D‘Arcy en aðrir leikarar eru alls ekki langt á bak við.

Stærsta þema myndirinnar er komin beint úr austurlenskum trúarbrögðum um endurfæðingu og hvernig einstaklingarnir sem leikararnir leika breytast með hverri persónu. Þróun þessa einstaklinga eru miklu dýpri ef maður lítur á þetta sem heild heldur en mismunandi sögur. Sérþemur komast samt til skila við sögurnar og er þá mest áberandi frelsi sem kemur fram í mörgum útgáfum (þrælahald á svörtum og klónum, haldið einstaklingi í húsi gegn hans vilja, o.fl.) og líka siðblinda, ást, trú og von.

Sama hvernig manni finnst myndin þá er margt aðdáðunarvert við hana. Það er erfitt að finna mynd sem er svipuð og hún, hún er stórkostlega metnaðarfull og er þar að auki ein dýrasta indie-mynd sem gerð hefur verið. Að mínu mati er þetta klárlega ein besta mynd ársins og er ekki langt frá því að vera meistaraverk (fyrir utan þá hluti sem ég hef minnst á þá fannst mér sögurnar vera misáhugaverðar). Og þar sem henni hefur ekki gengið vel að ná tekjum þá klára ég þessa rýni með þessum orðum: Farðu á þessa mynd.

4,5/5

Hægt er að lesa meira eftir mig hér.