Það var nokkuð ljóst árið 1994, þegar Ace Ventura kom út, að maður ætti eftir að sjá meira af þessum manni sem kallast Jim Carrey. Aðrar eins geiflur og orku hafði maður ekki séð í grínmynd í langan tíma. Hann er ofvirkasti maður plánetunnar og einnig einn þekktasti maður plánetunnar. Nokkru seinna átti hann eftir að sanna sig sem leikari og er nú með vinsælustu leikurum heims.
James Eugene Carrey fæddist 17 janúar 1962 í New Market,Ontario,Kanada. Fjölskylda hans var verkamannafjölskylda sem átti ekki sjö dagana sæla alltaf. Fátæktin reyndist Jim erfið og hann varð að taka að sér húsvarðastarf þegar faðir hans missti vinnu sína, þá var Jim ennþá táningur og strögglaði í skólanum. Hann hætti loks 16 ára í skóla og var gífurlega reiður ungur maður á þessum tíma að eigin sögn. Hann þróaði þó með sér kímnigáfu sem átti eftir að fleyta honum áfram. Hann var mikill einfari og þótti alltaf mikill lúði í skóla og átti því enga vini. Hann byrjaði í uppistandi aðeins 16 ára og flakkaði á milli klúbba í Kanada og svo í Los Angeles. Þar tók Rodney Dangerfield eftir honum og tók hann með sér í sinn túr. Næstu árin kom hann fyrir í nokkrum Clint Eastwood myndum og sýndi eftirhermuatriði í Comedy Store. Árið 1989 lék Carrey í myndinni Earth Girls Are Easy og þar lék Damon Wayans á móti honum. Bróðir Damon, Keenan, var að búa til þætti sem kallaðist In Living Color. Í gegnum Damon fékk Jim að bætast í hóp grínista í þættinum, þar var hann eini hvíti grínistinn. Þátturinn varð gífurlega vinsæll og barðist við Saturday Night Live þáttinn. Hann reyndi að komast í SNL en áheyrnarprófið gekk víst ekki vel og hann fékk ekki starfið.
Það var svo það herrans árið 1994 að ferillinn hjá Jim skaust upp. Þá lék hann í myndinni Ace Ventura:Pet Detective. Jim hataði upprunalega handritið en fékk Morgan Creek fyrirtækið til að gefa honum og leikstjóranum Tom Shadyac frelsi til að skrifa annað handrit eftir hugmyndum Carrey´s. Ace Ventura sló í gegn og nú var Carrey orðinn heitasta undrið í Hollywood. Charles Russell hafði séð stand-up hjá Carrey 1986 og vildi fá hann í gjörsamlega klikkað hlutverk í grínmyndinni The Mask. Hún sló einnig í gegn og nú var New Line Cinema fyrirtækið farið að sjá peninga í hyllingum. Þeir gerðu samning við Carrey þar sem hann fékk 7 milljónir dollara fyrir næstu mynd sína, Dumb and Dumber. Hann fékk einnig listrænt frelsi og hann nýtti það og barðist fyrir því að fá Jeff Daniels í hlutverk Harry Dunn(góð ákvörðun hjá Jim). Dumb and Dumber er með betri grínmyndum sem hafa komið út og er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Dumb and Dumber rakaði inn vel yfir 100 milljónir dollara og nú var stórstjarna fædd.
Þá var þessu merkilega ári í lífi Jim lokið og við tók 1995 þar sem Jim hélt upp stórstjörnustimpli sínum með tveim myndum. Sú fyrri var Batman Forver þar sem Jim lék Gátumanninn(The Riddler/Edward Nigma) sem reynir að ráða Leðurblökumanninn af dögunum ásamt Tommy Lee Jones. Ekki beint besta mynd Carreys en rökrétt ákvörðun að reyna fyrir sér í stærri mynd. Eftir það lék hann í framhaldi af Ace Ventura sem hét When Nature Calls, ekki sami kraftur en átti samt nokkur fyndin atriði inn á milli. Það var svo Ben Stiller sem leikstýrði Carrey í myndinni The Cable Guy. Svolítið dekkri mynd en aðdáendur Jim eiga að venjast. Fór eitthvað illa í suma en mér finnst hún ágætis skemmtun. Ekki þessi týpíska Carrey-mynd þar sem hann talar með rassinum og nokkuð lágstemmd en útpæld skilaboð í henni. Hann var nú ekki lengi að vinna aftur fylgi gömlu aðdáenda sinna sem vildu bara fíflalæti og andlitsgeiflur því 1997 gerði hann myndina Liar Liar. Leikstjóri hennar er Tom Shadyac( Ave Ventura) og var Jim greinilega að reyna að finna sitt gamla form síðan Ace var og hét. Hún sló auðvitað í gegn(enda gat hann gert hvaða mynd sem er að metsölumynd á þessum tímapunkti), ég var samt ekkert neitt svakalega hrifinn af þessari mynd.
Eins og svo oft áður skipti Jim allgjörlega um gír árið 1998 þegar hann ákvað að taka að sér hlutverk Truman Burbank í ádeilumynd hans Peter Weir(Witness,Fearless,Dead Poets Society). Handritið skrifaði Andrew Niccol en sá maður hafði skrifað áður og leikstýrt myndinni Gattaca. Jim Carrey fór á kostum í myndinni og vann sér inn Golden Globe verðlaun fyrir vikið en eitthvað létu Óskarstilnefningarnar á sér standa það árið. Hann lék svo lítið hlutverk í Simon Birch sama ár. Seinni hlutann af 1998 og allt 1999 lagði Jim í hlutverk sitt sem Andy Kaufman í mynd Milos Forman, Man On The Moon. Hann þótti lifa sig svo mikið í hlutverkið að fólk sagði að á þessum tíma breyttist Jim Carrey bókstaflega í Andy Kaufman. Aftur þótti Carrey standa sig með prýðum og vann aftur Golden Globe verðlaun en Óskarinn haggaðist ekki og tilnefndi hann ekki einu sinni.
Eftir smá pásu til að ná aftur geðheilsu sameinaðist Jim aftur Farelly-bræðrum(Dumb and Dumber) í myndinni My, Myself and Irene. Þar lék hann lögreglumanninn Charlie Baileygates sem þjást af margföldum persónuleika. Ekki nærri því jafn sterk og D&D en átti sína spretti. Það var eiginlega enginn annar sem hefði getað leikið The Grinch og það vissi leikstjórinn Ron Howard þannig að hann réð Jim í hlutverk skepnunnar sem stelur jólunum í bænum Whoville. Ég verð að viðurkenna það að ég hef ekki séð þessa mynd ennþá þannig að ég set enga slembidóma á hana fyrirfram. Nýjasta mynd Carrey´s er The Majestic sem Frank Darabont(Shawshank Redemption,The Green Mile) leikstýrir. Hún fjallar um rithöfund sem lendir í bílsslysi og missir minnið. Hann reynir að púsla saman lífi sínu í smábæ þar sem allir halda því fram að hann sé týndi sonurinn komin aftur heim.
Jim er um þessar mundir að leika í mynd sem kallast Bruce Almighty. Þar leikstýrir gamall félagi hans Tom Shadyac honum. Hún fjallar um mann sem kvartar og kveinar yfir því hvernig Guð sé um hlutina sem veldur því að Guð heimsækir hann. Guð gefur honum 24 tíma til að bæta heiminn annars eyðir Guð honum og sendir hann aftur til myrkra tíma. Jim er einnig að fara að gera mynd um auðkýfingin og geðsjúklinginn Howard Hughes. Það verður Christopher Nolan(Memento,Insomnia) sem ætlar að leikstýra þeirri mynd. Það gæti verið mynd sem Jim myndi tapa sér líkt og hann gerði í hlutverki Andy Kaufman.
Allskonar useless info um Jim Carrey:
Gæludýr: Iguana-eðla sem heitir Houston
Fyrsti bíll: Svartur Lexus
Núverandi bíll: Thunderbird blæjubíll
Hljómsveitir: Nirvana,Pearl Jam,Live,Green Day(spilast hátt)
Teiknimyndafígúra: Deputy Dawg
Félagar: Rodney Dangerfield,Arsenio Hall,Robin Williams
Lélegasta mynd sem hann hefur séð: Annað hvort The Computer Wore Tennis Shoes eða Blood Beast from Outer Space.
orðatiltæki: Spewing
Heimspeki: “Það er ágætt að fá handrit í hendurnar núna sem eru ekki þau handrit sem Tom Hanks skeinir sér með”
Laun
Truman Show, The (1998) $12,000,000
Liar Liar (1997) $20,000,000
Cable Guy, The (1996) $20,000,000
Batman Forever (1995) $5,000,000
Mask, The (1994) $540,000
Ace Ventura: Pet Detective (1994) $350,000
Dumb & Dumber (1994) $7,000,000
How the Grinch Stole Christmas (2000) $20,000,000 + merchandising
Man on the Moon (1999) $20,000,000
Me, Myself & Irene (2000) $20,000,000
Bruce Almighty (2003) $25,000,000
-cactuz