Ég fór áðan með mömmu, systur minni og tveim yngri systkynabörnum í boði Happdrætti DAS á Laugarásbíó klukkan 14:00 áðan. Þrjár myndir voru í boði: Teiknimyndirnar Jimmy Neutron og Ice Age sem voru sýndar klukkan 14:00 og 16:00 og síðan leikna myndin E.T. sem var eingöngu sýnd klukkan 14:00. Við föttuðum upp á því að fara á báðar myndirnar, það er Ice Age klukkan 14:00 og síðan Jimmy Neutron klukkan 16:00 sem var alveg fín hugmynd þar sem við förum ekki oft í bíó saman.
Þegar við komum á staðinn, um klukkan 13:40, þá sjáum við nú þegar slatta af fólki í bíóhúsinu og ætlum að drífa okkur á Ice Age og taka frá sæti. En NEI, er Ice Age þá ekki í minnsta bíósal sem ég hef séð, mætti halda að það kæmist bara svona 20-30 manns í salinn, SEM ER HÖRMULEGT. Síðan var E.T. í salnum við hliðina sem var jafn lítill. Jimmy Neutron var síðan í ágætlega stórum sal. Þetta bíó er LAME, þótt að þeir séu með stærsta THX salinn(svo segja þeir), þá eru þeir líka með minnstu salina á Íslandi(miðað við önnur sambærileg kvikmyndahús).
Jimmy Neutron: Boy Genius fjallar um strák sem er Einstein okkar tíma en því miður takmarka foreldrar hans hvað hann getur fundið upp því þau eru ekki beinlínis að hvetja hann til að gera tilraunir. Jimmy kemur á sambandið við geimverur en því miður eru þær ekki beint vingjarnlegar og ræna því öllum foreldrunum í borginni. Krakkarnir, í fararbroddi Jimmy Neutrons, þurfa að frelsa foreldrana frá geimverunum.
Myndin var með íslensku tali en því miður náði ég ekki nöfnunum á íslensku leikurunum en ég þekkti röddina í Erni Árnasyni sem lék kóng geimveranna snilldarlega(eins og venjulega). Ég var samt ekki sáttur við að kona/konur sé(u) að leika raddir sumra strákanna því það hljómar alveg rosalega asnalega og þetta eru alltaf sömu strákalegu raddirnar í öllum teiknimyndum.
Söguþráðurinn er samt ekki neitt sérstakur í sjálfu sér því hann er dáldið týpískur því að í enn einni myndinni þurfa krakkarnir að bjarga öllu og finnst mér að handritafólk ætti að fá betri og nýrri hugmyndir að myndum. Hugmyndin er samt vel útfærð og á skemmtilegan hátt þótt að á sumum stöðum má líta á atriði sem eru í næstum öllum myndum. Sem dæmi:
Söguhetjan missir trú á sjálfri sér, persónan sem venjulega er illa við söguhetjuna hughreystir hana og segir henni að missa ekki trú á sér og þá byrjar söguhetjan að standa sig betur og lýkur því sem hún ætlaði upphaflega að gera.
Jimmy Neutron var hin fínasta mynd og var hún líka skemmtileg, en hins vegar er ég ekki ánægður með að geta ekki séð Ice Age því við fórum strax í bíóið aftur og salurinn með Ice Age var fullur og fórum við því heim.