Var rétt í þessu að sjá Spider-Man á Nexus forsýningu. Ég mætti með því hugarfari að myndin yrði ekkert sérstök enda fannst mér trailerarnir ekkert sérstakir. En vá hvað ég hafði rangt fyrir mér. Þetta er að mínu mati besta ofurhetjumynd sem ég hef séð. Betri en superman og jafnvel betri en Batman.
Leikstjóri myndarinnar er Sam Raimi sem er aðallega frægur fyrir Evil Dead myndirnar sem eru cult splatter myndir. Hann hefur einnig gert myndir á borð við The gift og A simple Plan. Leikstjórnin er frábær og nánast gallalaus. Það er ekki dauður punktur í myndinni. Raimi fellur samt ekki í þá gryfju að gleyma persónusköpun. Myndin sýnir á fantagóðan hátt hvernig lúðinn Peter Parker(Tobey Maguire) breytist úr hinum dæmigerða lúða í ofurhetjuna Spider-Man. Fyrsti hluti myndarinnar er í uppáhaldi hjá mér. Það er svo skemmtilegt hvernig hann smám saman uppgötvar krafta sína. Vondi kallinn er Green Goblin(Willem Dafoe). Mér fannst búningurinn hans frekar asnalegur en Willem Dafoe bjargaði því enda frábær leikari.
Leikararnir voru allir mjög góðir. Tobey Magquire og Willem Dafoe stóðu uppúr og þá sérstaklega Tobey. Kirsten Dunst leikur stelpuna sem Peter Parker er ástfangin af og gerir það vel. Önnur hlutverk eru minni en leikurinn góður alls staðar.
Tónlist Danny Elfman er kannski eini veiki punkur myndarinnar. Hún er bara ekkert sérstök. Breytir samt litlu.Maður gjörsamlega gleymir henni enda myndin stórgóð skemmtun.
Margir hafa verið að kvarta yfir tæknibrellunum í trailerunum. Ég er sammála að sumt leit út fyrir að vera í teiknimynd. Þegar ég sá myndina núna áðan þá fannst mér þetta bara þó nokkuð raunverulegt og maður gapti stundum af hrifningu þegar Spider-Man sveiflaði sér á milli háhýsa í New York. Endaatriðið er stórkostlegt og fullkomnlega raunverulegt. Hvet alla til að sjá þessa mynd. Gef myndinni 9 af 10 mögulegum.