Shaft
Ég skellti mér í bíó um daginn og sá Shaft. Eins og eflaust allir vita þá leikur Samuel L.Jackson þennan ofurtöffara og gerir það vel. Mér fannst hann passa ágætlega í hlutverkið og framan af fannst mér myndin mjög skemmtileg. Shaft var svo svalur og hann hafði stjórn á öllu í kringum sig, það var ekkert sem Shaft réði ekki við. Þegar leið á myndina breyttist myndin því miður í hasarmyndasteypu, eitthvað sem mér fannst vera fyrir neðan virðingu Shaft. Allt í einu fór allt í háaloft, Shaft hafði ekki lengur stjórn á öllu og hætti að vera svalur. Skotbardagarnir fannst mér illa útfærðir, það var eins og þeir væru “turn-based”. Bófi kemur fyrir horn, dritar tugum byssukúlna í átt að Shaft, hættir að skjóta og ákveður að standa bara þarna, Shaft kemur fyrir horn og skýtur bófa tvisvar, bófi deyr. Endurtaka 10 sinnum. Það var eins og andstæðingar Shaft væru bara búnir með “action” stigin sín og gætu ekki hreyft sig meira þessa umferð. Þessi mynd hefði getað verið svo miklu betri en í staðinn varð til enn ein hasarmyndin.