Slackers
Það gerist ekki oft þar sem mynd fær enga stjörnu hjá mér, en eftir að hafa orðið fyrir einni verstu bíóupplifun í langan tíma, fær þessi mynd hiklaust sú einkunn. Maður hefur nú séð ýmsar misheppnaðar aulagrínmyndir nýlega (Not Another Teen Movie er gott dæmi um eina slíka), en Slackers er ein (ef ekki sú allra) versta af þeirri tegund. Hún er heimskuleg, ófyndin, drepleiðinleg og bara hreint út sagt ósmekkleg. Öll hegðun persóna myndarinnar er bara viðbjóðsleg og pervertísk (til að útskýra betur hvernig hegðun er hér um að ræða, þá kemur fram atriði þar sem viðkemur sokkabrúðu á kynfæri eins leikarans…og ekki get ég ímyndað mér að einhver fari að veltast úr hlátri yfir slíku). Handritið er eins og það hafi verið samansett af mörgum lélegum unglingagrínmyndum, og útkoman er bara einn misheppnaður aulabrandari. Leikurinn er nánast að öllu leiti lélegur, og þar er Jason Schwartzman (frændi Francis Ford Coppola) sérstaklega sakaður fyrir slappa frammistöðu, svo er hann líka bara mjög MJÖG óþolandi. Hann fór einmitt algjörlega á kostum í Rushmore fyrir nokkrum árum, en er að gera sig að fífli hér (og ég sver það að ég mun brjálast ef ég heyri hann syngja þetta ástarlag aftur…) og með þessu áframhaldi á hann enga framtíð í bíómyndum. Slackers reynir mest á að bjóða áhorfandanum upp á ógeðfellda brandara í stað þess að hafa þá eitthvað fyndna. Aldrei hló ég að myndinni, og ekki er einu sinni hægt að brosa yfir henni (mig minnir m.a.s. að aðeins krakkar á aldrinum 7-12 ára hafi hlegið að henni á sýningunni sem ég fór á). Myndin fjallar eiginlega um svo lítið sem ekki neitt, en segir þó frá þremur vinum, sem hafa svindlað sér í gegnum nám í Háskóla. Nýjasta svindlið þeirra heppnast ekki eins og ætlast var, og geðsjúkur nördi (Schwartzman) kemst upp um þá. Hann kúgar félaganna til að kynna sér fyrir sætri gellu, en einn í vinahópnum (Devon Sawa - úr Final Destination) fellur svo fyrir henni sjálfur (dö…ein algengasta Hollywood-klisja sem til er!). Sagan er fyrirsjáanleg að öllu leiti. Persónurnar eru ekkert áhugaverðar og klisjan í lokin var bara too much, og maður var næstum því farinn að æla yfir henni. Þess vegna mæli ég sterklega með því að áhorfendur sem munu ekki hlæja að fyrsta brandaranum, yfirgefi salinn eða bara hætta að horfa á hana áður en klisjan tekur völdin. Ég var alveg tilbúinn til að fara í hlénu, en einhverra hluta vegna sat ég kyrr (og leit á klukkuna á 5 mínútna fresti eftirá) og beið eftir góðum brandara. Grínmyndir eiga ábyggilega ekki eftir að verða mikið verri en þetta, og ég er nú þegar kominn með mynd sem stekkur beint í fyrsta sætið á mínum lista yfir verstu myndir ársins 2002. Slackers sleppur þó rétt frá því að vera algjört rusl, vegna ágætra sena, þar sem þær Cameron Diaz og Gina Gershon koma við sögu. En það er samt ekki nóg til að myndin fái betri einkunn. Ég mundi frekar ráðleggja fólki að sjá Battlefield: Earth aftur heldur en þessa svokölluðu gamanmynd.