The Adventures Of Tintin: Secret Of The Unicorn Ég efast um að það hafi oft komið mynd með eins mikið af öflugu fólki á bak við myndavélina og The Adventures Of Tintin. Ekki nóg með það að Steven Spielberg sé að leikstýra myndinni, heldur framleiðir hann myndina með Peter Jackson (sem leikstýrði/framleiddi The Lord Of The Rings þríleiknum), myndin er skrifuð af Edgar Wright (Shaun Of The Dead, Hot Fuzz, Scott Pilgrim vs. The World), Joe Cornish (Attack The Block) og Steven Moffat (Sherlock, Doctor Who), inniheldur tónlist eftir John Williams, kvikmynduð af Janusz Kaminski (tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi) og klippt af Michael Kahn (þrefaldur Óskarsverðlaunahafi). Og til að toppa allt er leikaravalið frábært. Miðað við að myndin er leikstýrð af einum þekktasta leikstjóra allra tíma sem er ekki óvanur ævintýramyndum, skrifuð af þremur frábærum breskum höfundum og hefur nokkra æðislega breska leikara, þá er hægt að segja að þessi mynd sé mjög góð blanda af ævintýramynd á hæsta stigi með frábæran breskan húmor.

Ég hafði alltaf gaman af því að lesa Tinnabækurnar þegar ég var á mínum yngri árum. Mér fannst samt fyrstu bækurnar aldrei vera neitt sérstakar, og ég held að aðalástæðan sé hversu fáir aukakarakterar eru í þeim, en þeir eru eitt það besta við bækurnar. Annars eru bækurnar skemmtilegar, fyndnar og fullar af góðum ævintýrum. Kaldhæðnislega voru bækurnar sem eru byggðar á þessari mynd (þær eru þrjár) ekki til á mínu heimili.

Það er lítið hægt að kvarta yfir sögunni eða útlitinu. Þrátt fyrir að myndin blandi þremur heilum sögum í eina mynd sem er undir tveimur tímum, þá er hún mjög trú uppruna sínum og er aldrei dauður kafli í myndinni. Útlitið sjálft og stíllinn er frábært og smáatriðin sem myndin kemur með eru ótrúleg.

Motion-Capture stíllinn er næstum því fullkominn í þessari mynd. Karakterarnir ná frábærri blöndu af raunveruleika á meðan þeir eru ennþá teiknimyndalegir. Enginn karakter er ólíkur uppruna sínum og sumir eru ótrúlega raunverulegir, og þá sérstaklega aðalkarakterarnir. WETA hafa verið kóngar tölvubrellurnar í meira en áratug og þeir eru ekkert að fara að missa þann titil. Jafnvel þótt útlitið sé ekki eins byltingarkennt og Lord Of The Rings eða Avatar, þá skilar það sínu. Spielberg veit líka fullkomlega hvað virkar betur með svona myndir heldur en live-action myndir. Hasaratriðið í Afríku er eitt besta atriði ársins. Ekki nóg með það að það sé skemmtilegt, spennumikið og fyndið heldur er kvikmyndatakan ótrúleg. Það inniheldur eitt ótrúlegt skot sem helst út í rosalega langan tíma. Svona hlutir hefðu aldrei virkað eins vel hefði myndin ekki verið tölvugerð.

Húmorinn er frábær hvort sem það eru góðar línur eða líkamlegur húmor. Tilvísanir eru líka á mörgum stöðum í myndinni sem eingöngu þeir sem hafa lesið bækurnar fatta. Karakterarnir eru þar að auki vel samdir og sjaldan kemur lélegur brandari.

Spielberg setur rosalegt skemmtanagildi inn í þessa mynd. Hann veit nákvæmlega hvernig hún á að vera. Myndin flæðir vel, húmorinn er aldrei of langt í burtu og hún eyðir aldrei tíma í drama, enda passar það engan veginn við myndina. Þrátt fyrir að hann hefur gert betri ævintýramyndir þá er lítið hægt að segja hvað var að þessari mynd. Ég held að ég gangi svo langt að kalla þetta bestu ævintýra/sci-fi mynd sem Spielberg hefur gert síðan Minority Report.

Leikararnir passa fullkomlega, en þá er ég meira að tala um raddir og frammistöður heldur en útlit. Jamie Bell kemur með einhverja bestu útgáfu af Tinna sem ég hef séð. Í bókunum hefur hann nær alltaf verið annað hvort litlaus eða lent í skugganum af frábærum aukakarakterum. Hér er hann viðkunnanlegur, kemur með nokkrar mjög góðar línur og hefur sjaldan sem aldrei verið eins áhugaverður. Andy Serkis er frábær sem Kolbeinn Kafteinn. Hann hittir á allar réttu nóturnar og er langeftirminnilegasti karakter myndarinnar. Serkis er líka vel reyndur við að leika við svona tækni, og þetta er ekki í fyrsta skipti á árinu þar sem hann stelur myndinni sem tölvugerður karakter (Cesar í Rise of the Planet of the Apes). Daniel Craig stendur sig einnig vel sem illmennið í myndinni. Myndin hefur þar að auki tvo frábæra samleiki. Serkis og Bell smellpassa saman og Nick Frost og Simon Pegg, sem leika Skapta og Skafta, eru alltaf jafngóðir, þrátt fyrir takmarkaðan skjátíma, en þeir nýta hverja einustu sekúndu sem þeir hafa og enda sem frekar fyndnir karakterar. Það var samt frekar leiðinlegt að Vandráður var ekki í myndinni (en hann var fyrst kynntur í síðustu bókinni, Red Rackham’s Treasure).

Þeir sem hafa lesið bækurnar ættu að fá meira úr myndinni vegna nostalgíunnar sem myndin hefur, en líka vegna allra tilvísana og hversu trú myndin er sögunum í stíl, sjarma og einfaldleika. Þetta er án efa besta afþreyingamynd ársins með Thor og Attack The Block.

8/10