Ég sá verðbréfagúmmítöffaramyndina BOILER ROOM um daginn. Leist ekki á blikuna fyrsta hálftímann eða svo. Dæmigerðir ítalsk- og gyðingættaðir lúðar frá New York í andlegum macho sjit-leik. Þó rættist nú aðeins úr myndinni. Hún varð áhugaverðari eftir því sem á hana leið og umfjöllunarefnið nokkuð áhugavert og risti aðeins undir yfirborðið. Ekki sakaði að aðalleikarinn, Giovanni Ribisi, er með efnilegri mönnum í leikarastétt USA - brillerar í hverri myndinni á fætur annarri. Aðrir eins og Nicky Katt (A time to kill, Boston Public) og Vin Diesel (Pitch Black, Fast and the Furious) stóðu sig stórvel miðað við steríótýpurullurnar sem þeir fengu í hendurnar. Sem sagt þokkaleg mynd… í besta falli.
En mig langar aðeins til að skrifa stuttlega um þátt Ben Affleck í myndinni. Hann lék eiturharðann, hrokafullan skrifstofupjakk með kjaftinn á réttum stað. Fyrirmynd hans í mínum huga var aðeins ein. Alec Baldwin í Glengarry Glen Ross - hinu stórbrotna meistaraverki David Mamets, sem kvikmyndað var 1993. Alec Baldwin hefur aldrei sérstaklega verið í uppáhaldi hjá mér og er það ekki enn. Ég hafði alltaf lítillega rankað hann ofar en þessir hæfileikalitlu bræður hans, William, Stephen og Daniel. Stephen kannski ágætur í Threesome og vestranum Posse en hinir hálfvitarnir tveir vitavonlausir. Alec er þó sá eini í hópi þeirra sem er “klassískur” leikari- með mikla sviðsreynslu og hafa ber í huga að þegar meistari Al Pacino valdi hann til að leika burðarrullu í sinni áhugaverðu heimildarkvikmynd LOOKING FOR RICHARD þá var það ekki af því honum fannst Alec hafa verið svo góður í fokking Getaway!! En þegar ég sá Glengarry fyrir mörgum árum síðan náði Alec áður óþekktum hæðum. Hann lék þar í einu, löngu atriði og sýndi þar eitthvern snilldarlegasta performans sl. 10 ár í bandarískri kvikmynd. Lék hann fasteignasala sem hélt þvílíka þrumuræðu með tilþrifum að ég sat sem límdur þegar ég sá myndina í fyrsta sinn. Hann sýndi þarna meira í einu atriði en hann hafði sýnt í öllum öðrum myndum SAMANLAGT. Affleck var GREINILEGA inspireraður af þessu eftirminnilega atriði í sínu atriði í Boiler Room. Vandamálið er bara að snillingurinn David Mamet er höfundur textans sem Baldwin fór með (og texti skrifaður af Mamet er draumur flestra leikara að fara með), Baldwin túlkaði hrokagikk af meiri innlifun en ég hef séð síðari ár og Affleck á töluvert í land með að ná honum. En viðleitnin var ágæt og Affleck getur alveg staðið sig bærilega ef hann leggur sig fram…. hann hefur sýnt það.
Ég ætla þó ekki að skrifa hér meira um Glengarry hér, reyni að halda mig við þátt Baldwins í þeirri mynd, en frammistaða annarra leikara í þessari STÓRKOSTLEGU bíómynd (og leikriti) er efni í heila ritgerð og þar sem um er að ræða eina af mínum uppáhaldsmyndum, gæti sú ritgerð orðið ansi löng og ég vill hlífa ykkur frá slíku (..nógu er þetta nú orðið langt…úfff)
Samt spilar Boiler Room sig ansi seif með því að vitna í Glengarry Glen Ross og gerir sig þarmeð líklega til að verða túlkuð á eitthvern hátt sem parodía - skot á kalla eins og Mamet (og þá fífl eins og mig sem dýrka hann?? ….hmmmm). Hafa skal í huga vel heppnað atriði þar sem verðbréfalúðarnir horfa saman og vitna í kvikmyndina WALL STREET með óhugnanlegri nákvæmni. Það ýtir undir ádeiluna á lúðalíf gúmmítöffarana. Allt tilbúnir stælar. En allaveganna….. parody or not… Affleck er enginn Alec. Berið saman umrædd atriði myndanna tveggja og dæmiði svo….
p.s. Þið sem enn eigið eftir að sjá Glengarry Glen Ross ….drífið ykkur…hún er ekki fyrir alla, þið verðið að hafa gaman af “kjaftavaðalsmyndum”, en annar eins konfektsvaðall sést ekki í hvaða bíómynd sem er..