Þessi magnaða mynd Jim Jarmusch(Dead Man) kom út árið 1999 og skartar hinum magnaða Forest Whitaker í hlutverki leigumorðingjans Ghost Dog. Ég sá þessa mynd fyrir ári síðan og kom hún einstaklega á óvart.
Ef maður ætti að flokka þessa mynd þá myndi maður kalla hana hiphop/mafíósa/leigumorðingja/samúræja mynd. Ég veit þetta hljómar asnalega en myndin er byggð á mismunandi menningarheimum. Hún fjallar um Ghost Dog sem er leigumorðingi og fylgir reglum hina ævafornu samúræjastríðsmanna. Vinnuveitandi hans er mafíósinn Louie sem bjargaði lífi hans einu sinni. Ghost Dog er 100% húsbóndahollur Louie og einungis Louie. Louie tilheyrir mafíósafjölskyldu sem er eiginlega misheppnuð og reynir að vera “alvöru” mafíósafjölskylda en tekst það ekki. Vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna við eitt af verkefnum Ghost Dog ákveður mafíósarnir að losa sig við Ghost Dog en það er hægara sagt en gert.
Miðpunktur myndarinnar er menningarárekstrar, þeas á milli mafíósamenningarinnar sem flestir kannast við úr myndum eins og Goodfellas og Godfather og svo götustrákurinn sem hlustar á hip hop og fylgir samúræjamenningu. Besti vinur Ghost Dog er frá Haítí og talar eingöngu frönsku. Þrátt fyrir að Ghost Dog talar ekki frönsku skilja þeir hvorn annan. Þeir ná að yfirbuga menningarmúrinn og skilja hvorn annan án þess að tala sama tungumál(mjög sniðug hugmynd hjá Jarmusch). Myndin er stundum fyndin og er það aðallega á kostnað mafíufjölskyldurnar sem skopstæling á mafíunni sem allir kannast við og hafa séð í myndum. Fjölskyldan er stórskrýtin og full af mafíu klisjum og gjörsamlega veruleikafirrt. Myndin er auðvitað ofbeldisfull stundum en ofbeldið er smekklega unnið og ekki yfirþyrmandi. Margar senur þar sem Ghost Dog er að drita menn niður virkar hann eins og draugur og lipur sem köttur þrátt fyrir að Whitaker er frekar stór maður. Whitaker er einnig narrator því á köflum þylur hann upp siðareglur samúræjana sem hann fer eftir. Þar á meðal hugsar hann ekki um fortíð eða framtíð eingöngu samtíðina. Þannig að þegar hann hefur lokið verkefni þá hugsar ekkert um það aftur.
Forest Whitaker er magnaður í þessu hlutverki og er auðveldlega hægt að fullyrða að þetta er hans besta hlutverk til þessa. Hann svífur áfram með hip hop tónlistina dynjandi undir í svörtum fötum og það geislar af honum hversu svalur hann er í þessu hlutverki. Hann er yfirvegaður en jafnframt miskunarlaus þegar að því kemur. Tónlistin í myndinni býr til sérstaka stemmningu, sá sem er við stjórnvölin þar á bæ er RZA úr Wu tang clan. Hún er skemmtileg blanda af hip hop tónlist og austurlenskri tónlist.
Myndin hefur sterka sögu og er myndrænt séð er hún gífurlega vel gerð. Tekin upp í rólegum og svölum anda líkt og Ghost Dog lifir og hreyfir sig. Næturtökurnar eru drungalegar og gefa góða tilfinningu fyrir auðum strætum stórborgar. Síðan fullkomnast myndin með frábæru soundtracki.
Ghost Dog er mynd sem enginn kvikmyndaáhugamður ætti að láta framhjá sér fara. Hún er áhugaverð, frumleg og fyrst og fremst óhefðbundin. Hún fær 7.7 á imdb.com en ég myndi helst vilja gefa henni 8.5
-cactuz