Það má til sanns vegar færa að Reykjavík Guesthouse sé einföld saga um einfaldan mann eins og fram kemur í kynningum á myndinni. Hilmir Snær Guðnason leikur Jóhann sem erft hefur gistihús eftir föður sinn sem er nýlátinn. Hann streitist á móti því að selja gistihúsið til stórrar hótelkeðju sem vill breyta húsnæðinu. Hann veit varla í hvorn fótinn hann á að stíga og telur sig að því er virðist ekki geta tekið á móti gestum og segir því þeim sem hringja að öll herbergin séu upptekin. Inn í líf hans kemur 9 ára drengur sem býr hjá drykkfelldri ömmu sinni og er ofsóttur af skólafélögum sínum. Með þeim tekst vinátta.
Sagan er einföld og fremur hæg. Um er að ræða mikil sálarátök og myndin lullar í raun í gegn og er á köflum ögn langdregin þrátt fyrir að vera aðeins um 80 mínútur í sýningu. Myndin er að því er virðist unnin sem e.k. dogma mynd og er fyrir vikið nokkuð hrá í útliti sem þarf auðvitað ekki að vera slæmt.
Leikararnir standa sig allir prýðilega í sínum hlutverkum en vil ég þó sérstaklega nefna Hilmi Snæ og Stefán Eiríksson. Leikstjórarnir Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors hafa gert nokkuð áhugaverða mynd um einfaldan mann en því miður nær sagan sjaldnast miklu flugi.