Börn, fyrri helmingur tvíleiksins sem kom út úr samstarfi leikhópsins sem kennir sig við VesturPort er auðveldlega bæði eftirminnilegasta og besta íslenska kvikmynd sem ég hef séð. Þegar horft er á hana er ekki hægt að rífa augun af henni. Íslendingar hafa gert svokallaðar „art-house“ myndir áður, og margar hafa verið alveg prýðilegar. Börn er þó fyrsta íslenska kvikmyndin sem er í algerum heimsklassa. Söguþráðurinn er í anda Robert Altmans og P.T. Anderson, í þeim skilningi að í raun er engin aðalpersóna. Í þessari mynd er fylgst með þremur einstaklingum og fólkinu í kringum þá, og sögurnar þeirra koma saman á nokkrum stöðum. Fyrsta sagan fjallar um Marínó sem er þroskaskertur einstaklingur sem býr hjá mömmu sinni og vinnur í verslun frænda síns. Önnur sagan fjallar um hjúkrunarkonu í peningavandræðum. Þriðja og auðveldlega áhugaverðasta sagan fjallar um barnsfaðir hennar, handrukkarann Garðar. Garðar er besta persóna íslenskrar kvikmyndasögu, einfaldlega af því að það hefur engum tekist að túlka vængbrotið illmenni áður. Eftir að handrukkun (á frænda Marínós) fer úrskeiðis neyðist hann til að láta lítið fyrir sér fara, og ákveður hann þá að reyna að kynnast syni sínum. Þau atriði þar sem þeir hittast eru svo vel gerð að það mætti halda að þetta hafi verið heimildamynd.
Þegar ég sá þessa mynd fyrst, var það þrem árum eftir að hún kom í bíó, en þegar hún var í bíó var ég reiður kvikmyndasnobbari sem hélt að ekkert gott kæmi úr miðbænum. Þegar ég fór svo á Bókasafn MH og kippti með fágæta kassa sem innihélt bæði Börn og framhaldið, Foreldra, hafði ég ekki hugmynd um hvað ég væri að fara að horfa á, annað en að í sálfræðitíma í vikunni áður hafði verið sýnt atriði úr myndinni sem mér fannst frábært. Ég haugaðist í gegnum daginn með diskanna í töskunni minni án þess að flýta mér neitt að horfa á þá. Klukkan ellefu ætlaði ég svo að fara að sofa. Þrem svefnlausum tímum síðar gafst ég upp á því, og ákvað að henda þessari íslensku mynd í tækið. Það sem tók við var einhver besta kvikmyndaupplifun sem ég man eftir, en þær eru ekki margar myndirnar sem ég man eftir í hvaða aðstæðum ég sá þær. Gísli Örn varð samstundis ekki bara uppáhalds leikarinn minn, heldur bara uppáhalds listamaðurinn minn á Fróni. Daginn eftir horfði ég aftur á myndina, auk Foreldra. Þessi mynd mun lifa í mörg ár.