The Royal Tenenbaums
Önnur stórskemmtileg og frábærlega furðuleg gamanmynd eftir þá Owen Wilson og Wes Anderson, sem færðu okkur m.a. hina stórgóðu Rushmore. Myndin segir frá hinni undarlegustu fjölskyldu, Tenenbaum-fjölskyldunni, sem misst hefur öll tengsl. Royal (Gene Hackman) er fjölskyldufaðirinn, Etheline (Anjelica Huston) er móðirin, og svo eru það börnin þrjú, sem eru öll jafn gáfuð og þau eru furðuleg, það eru þau Chas (Ben Stiller - alveg frábær, og er búinn að draga sig í hlé frá fastahlutverkunum sem klaufabárðurinn), Richie (Luke Wilson - kemur einnig á óvart) og Margot (Gwyneth Paltrow). Royal er leiður á að hafa engin sambönd við fjölskylduna, svo hann þykist vera dauðvona, bara svona til að sameina fjölskylduna á ný, en eftirá breytist allt og því meira sem tíminn líður styrkjast bönd þessarar fjölskyldu. Í minni hlutverkum má m.a.s. finna Bill Murray (synd að hlutverk hans hafi ekki verið stærra), Danny Glover, Owen Wilson og Alec Baldwin, sem er sögumaðurinn. Þetta er í stuttu máli ótrúlegt lið leikara, og það er jafnvel en ótrúlegra hvað þeir ná allir vel saman. Handritið er mjög vel skrifað, persónurnar eru allar frábærar og tónlistin er líka í fínu lagi. Gene Hackman er skemmtilegur sem fýlupokinn Royal, og Huston er líka góð sem móðirin. Gwyneth Paltrow hefur einnig tekið sér hlé á því að vera með sæta útlitið, og sýnir á sér nýja og ófríðari hlið, og stendur sig bara mjög vel í þessu hlutverki. Stiller og Owen sameinast enn á ný (þeir sáust seinast sem pottþétt tvíeyki í Zoolander) og eru alltaf góðir. Ekki er hægt að kvarta undan leik aukaleikaranna, og ekki heldur undan leikstjórn Andersons. The Royal Tenenbaums virkar ekki alltaf á dramatísku leveli og mér fannst líka að það hafi verið of mikið farið út í ákveðna ástarsögu heldur en samband fjölskyldunnar, en hún nær samt sem áður að fá mann til að hlæja annað slagið, og með bröndurum sem tengjast hvergi greddu eða einhverju öðru slíku. Hér er um að ræða frábæra mynd sem gefur fyrrnefndu mynd Andersons lítið eftir. Myndir eins og The Royal Tenenbaums eru óvenju sjaldgæfar nú á dögum, og ég mæli eindregið með henni. Ég hvet sem flesta til að sjá þessa feel-good mynd.