Nú er enn ein Óskarsverðlaunaafhendingin afstaðin, og sýnist sitt hverjum. Auðvitað verður aldrei fullkomin sátt um veitingarnar, og oft á tíðum tilgangslítið að vera að kvarta og kveina eftirá. Stundum verða úrslitin þó á þann veg að maður getur ekki orða bundist. Kvikmyndaakademían sem veitir Óskarsverðlaunin eru auðvitað skipuð af fólki sem er eins ólíkt og það er margt. Fjölmargt hefur áhrif á ákvarðanatöku þess (og loks atkvæði); persónulegur smekkur hvers og eins, vinatengsl, pólitík o.s.frv. Það er auðvitað gott og blessað, en að lokum hlýtur þess að vera krafist af fólki sem fær að greiða atkvæði í jafn afdrifaríkri kosningu og óskarskosningin er, að það hafi eitthvað vit á kvikmyndum og kvikmyndagerð, og einhvern snefil af sjálfsvirðingu. Eins og sést á vali gærkvöldsins er einhver alvarlegur misbrestur á þessu. Ég var ósáttur með marga flokka eins og sjálfsagt margir, en verðlaunaveitingarnar í nokkrum helstu flokkunum get ég einfaldlega ekki skýrt með öðru en geðveiki eða múgsefjun.
Besti leikari í aðalhlutverki:
Ég er enn að átta mig á því að Denzel Washington hafi hlotið verðlaunin fyrir túlkun sína á spilltu löggunni í Training Day. Washington er stórleikari sem á að baki mörg eftirminnileg hlutverk, en hlutverkið í Training Day getur varla talist til þeirra. Af þeim sem tilnefndir voru fannst mér Denzel Washington langsístur í sínu hlutverki. Í samanburði við túlkun Will Smith á Muhammad Ali, Sean Penn á þroskaheftum manni í I am Sam eða stórleik Tom Wilkinson á móti Sissy Spacek í In the bedroom, var frammistaða Washington algjört miðjumoð. Niðurstaðan er skiljanleg aðeins sem vinsældakosning.
Besta leikkona í aðalhlutverki:
Tom Wilkinson og Sissy Spacek komust á nýliðnu ári í hóp eftirminnilegustu para hvíta tjaldsins fyrir stórleik sinn í In the bedroom. Óaðfinnanlegur leikur þeirra yfirskyggir að mínu mati algjörlega annars ágæta frammistöðu Halle Berry í suðurríkjamyndinni Monster's Ball. Í samanburði við fyrri leik Berry er þetta hlutverk lofsvert, en stenst engan veginn samanburð við leik Spacek í In the bedroom. Að hvorki Tom Wilkinson né Sissy Spacek hafi hlotið verðlaun í gærkvöldi er hneyksli.
Besta erlenda kvikmyndin:
Ég ætla að verða fyrstur til að viðurkenna að ég hef ekki séð tvær myndanna sem voru tilnefndar í þessum flokki, El Hijo de la novia frá Argentínu og Lagaan frá Indlandi. Það má vera að önnur þeirra hafi verið betur að þessum verðlaunum komin en No man's land, ég skal ekki segja. Hitt veit ég að af þeim þrem sem ég hef séð, Elling, Amelie og No man's land, þá bar Amelie höfuð og herðar yfir samkeppnina. Frumleg að allri gerð, þéttur leikur, frábær myndataka, tónlist og förðun, að ekki sé minnst á skemmtilegan frásagnarstílinn. Veisla fyrir augu og eyru. No man's land var vissulega sterk, en einhvernveginn fannst manni frekar verið að veita verðlaun fyrir bágborið ástand heima fyrir, frekar en kvikmyndagerð. No man's land dró upp grátbroslega mynd af ástandinu í Júgóslavíu, en sem kvikmynd er hún langtum síðri en Amelie. Samviskubit Sameinuðuþjóðanna?
Besta frumsamda lagið:
Tónlistarsmekkur fólks er sannarlega ólíkur (selja N'Sync t.d. ekki grimmt?). Hér verður smekkur meirihlutans að sjálfsögðu að ráða ferðinni. En hvaða meirihluti er það, sem kaus lag Randy Newman, If I didn't have you, úr Monters Inc. (er þetta sami meirihluti og kaupir N'Sync plötur?). Þetta er eini flokkurinn að mínu mati þar sem ein tilnefningin var fyrir beinlínis lélega smíð. Það er ekkert annað orð sem getur lýst þessu lagi Randy Newman. Öll hin lögin tilnefndu tóku þessu lagi langt fram. Skyldu þetta hafa verið sárabætur?