9.Brat Bird Hver listi þarf að innihalda eitt nafn sem kemur fólki á óvart. Hirðleikstjóri Pixar er það nafn á þessum lista. Bird hefur vissulega einungis frumsýnt tvær myndir á áratugnum en báðar eru þær stórgóðar og geng ég meira að segja svo langt að kalla Ratatouille ein af bestu teiknimyndum kvikmyndasögunnar. Incredibles var líka stórkostleg skemmtun og er ein af fáum myndum sem raunverulega eru fyrir alla aldurshópa. Helsti kostur kvikmynda Brad Bird eru gífurlega góð persónusköpun og samtöl. Sköpunargleðin leynir sér ekki og það beinlínis skín í gegn að hann skemmti sér vel í vinnunni sinni.
8.Christopher Nolan er næsti leikstjóri á listanum. Hann leikstýrði einni bestu spennumynd ársins 2008 sem, ásamt Batman Begins, lífgaði dökka riddarann við eftir áralangt dá. Eitt af því sem gerir leikstjóra góða eru góð tök á leikurum og það hefur Nolan svo sannarlega. Heath Ledger fékk, eins og frægt er orðið, Óskarsverðlaun fyrir leik sinn og átti það svo sannarlega skilið. Aaron Eckhart fékk ekki það hrós sem hann átti að fá (enda í skugga Ledgers) en leikur hans var ekkert mikið síðri. Því miður verð ég að viðurkenna að ég hef einungis séð hinar svokölluðu “main streem” myndir hans og hver veit nema hann færist ofar á listann þegar ég sé Memento. Annars bara virkilega fínn leikstjóri þó að ég get ekki sagt að nein mynd hans hafi snert mig djúpt.
7.Edgar Wright Bretar virðast vera nokkuð öflugir í gamanmyndabransanum og á sú þjóð þó nokkrar myndir á gamanmyndalistanum mínum (ójá, listarnir mínir eru fjöldamargir). Hot Fuzz er þar fremst í flokki enda ekki bara ógeðslega fyndin heldur líka beinlínis góð. Bæði Hot Fuzz og Shaun of the dead, sem er fyrri mynd leikstjórans, eiga það sameiginlegt að vera settar oftar í tækið en góðu hófi gegnir. Það ótrúlega er að við hvert áhorf uppgötva ég eitthvað nýtt. Það getur verið nýr brandari eða hreinlega nýr tilgangur senu. Hver einasta persóna sem birtast í myndunum er yndisleg á einhvern hátt og oft stóð ég sjálfan mig í því að verða sorgmæddur þegar líf einstakra sögupersóna tók enda.
6.Quentin Tarantino. Það er alltaf spennandi þegar Tarantino kynnir næstu mynd sína enda er hægt að bóka það fyrirfram að sú mynd verði ekki eins og maður hafði búist við í upphafi. Frumlegheit í bland við gömul minni úr kvikmyndum einkenna myndir hans ásamt því sem er í mestu uppáhaldi hjá mér; samtölin hans. Það er aðdáunarvert hvernig maðurinn notar löng samtöl án þess að spennan detta niður. Margir leikstjórar, sem treysta sér ekki í neitt lengra en “one linera” mættu taka Tarantino sér til fyrirmyndir í þeim efnum. Virðing hans fyrir viðfangsefninu er augljós og það er ekki oft sem persónur tala á þjóðtungu sinni þegar hún er ekki enska. Þetta sést auðvitað best í myndinni sem ég tel vera meistaraverk hans, Inglourious Basterds. Hver hefur ekki heyrt talað um magnaða frammistöðu Christoph Waltz sem skapar, með hjálp leikstjórans, eitt besta illmenni áratugarins. Tónlistin er hárrétt valin í öllum verkum Tarantinos og það sama má segja um allt það fagfólk sem starfar í krignum hann.
5.Peter Jackson kom á árunum 2001 til 2003 með stærstu myndir fyrri hluta áratugarins. Stærð mynda eru svo sannarlega ekki alltaf tákn um gæði en aðdáendur P.J. þurfa þó ekki að hafa áhyggjur. Ég ætla mér ekki lasta verkin. Þvert á móti tel ég að erfitt sé að finna betri aðlögun frá skáldsögu til kvikmyndar. Fyrsti og þriðji hlutinn eru gullmolar á þó mjög ólíkan hátt. Á meðan Föruneyti Hringsins er ævintýralegri er Hilmir snýr heim mun epískari. Föruneytið er í meira uppáhaldi hjá mér en mjótt er þó á mununum. Tveggja turna tal er veika myndin í trílógíunni en er þó betri en flestar þær ævintýramyndir sem ég hef séð. Samtal Gollris við Smjaðgal er til að mynda betra en öll Avatar í heild sinni. Margir voru ósáttir við King Kong og vissulega hefði hann mátt slaka örlítið á tæknibrellumontinu í miðju myndarinnar en gamaldags form myndarinnar náði samt að heilla mig.
4.Jason Reitman öðlaðist verðskuldaða frægð þegar Thank you for smoking var frumsýnd 2005. Virkilega snjöll mynd eins og reyndar allar hans myndir og áhugvert að fá að skyggnast inn í líf jafn hataðs manns. Up in the air kom svo þægilega á óvart þegar hún náði að toppa frumburðinn (Þ.e.a.s, myndina sem ég kynntist fyrst). Það sem einkennir myndir Reitman er rosalega kröftugur leikur í burðarhlutverkum og virðist sem hann eigi auðvelt með að soga að sér góða leikara. Junó er versta mynd Reitman en sá titill lætur myndina hljóma mun verri en hún er, því góð er hún. Loksins fengum við að sjá unglingamynd sem var fullkomlega laus við allar klisjur og yfirborðskennd. Junó var djúp en þó ákaflega þægileg lítil mynd og það sama má kannski segja um hinar tvær. Þær eru ákaflega þægilegar á að horfa en þó báðar mjög áhugaverðar satírur. Leikstjórinn hefur traust tök á kvikmyndum sínum og flæðið er frábært. Það er einnig skemmtilegt hve óútreiknarlegar þær eru og það gerðist í hverri mynd að mér dauðbrá yfir einhverju sem ég átti ekki von á að gerðist. Jason Reitman er einn ferskasti leikstjóri Bandaríkjanna.
3.Woody Allen þekkja væntanlega allir og er væntanlega umdeildasta nafnið á listanum. Sumir elska hann á meðan aðrir eiga erfitt með að sjá snilldina í kvikmyndum hans. Ég tilheyri fyrrnefnda hópnum og iða allur af kæti þegar ný mynd er frumsýnd (sem er nú sem betur fer oft). Samtöl eru sterka hlið Allens. Þau eru reyndar svo góð að ef ég gæti myndi ég stela þeim öllum til þess að nota í mína eigin mynd. Flæðið í þeim er undravert þrátt fyrir að vera troðfull af hikorðum sem gera þau bæði taugaveikluð og raunveruleg. Það er hrein unun að kynnast persónum hans, oft listamenn sem eru á einhvern hátt týndir í lífi sínu, og oft hefur mig hreinlega þráð að lifa þessu Woody Allen lífi. Lifa í stórborg, skrifa gómsætt handrit á daginn og spila með stórsveit á kvöldin. Líklegast til er líf hans þó ekki alveg svona einfalt. En aftir að kvikmyndum hans! Þær eru afar einfaldar en skilja mann samt sem áður eftir svo sáttan. Tónlistin er svo rúsínan í pylsuendanum.
2.Coen bræðurnir tveir hafa lengi verið mínir uppáhalds leikstjórar. Þessi áratugur hefur bætt nokkrum meistaraverkum við í safnið og má þar nefna O Brother, Where Art Thou, No Country for old Men og A Serious Man. Bræðurnir hafa einstakt lag á að koma með nýjar og ferskar hugmyndir ár hvert og langoftast virka þær. Einhvern tímann velti ég því fyrir mér hvers vegna Ethan og Joel Coen eru eins góðir og raun ber vitni. Myndirnar þeirra eru oft troðfullar af húmor sem þó er ekki matreiddur ofan í þig heldur liggur svolítið undir yfirborðinu. Sagan nær tökum á þig næstum því strax og hún er tefld fram á mjög áhugaverðan hátt. Persónurnar sem Ceon bræður vilja að þú elskir eru ákaflega auðvelt að elska en svo eiga þeir líka svo auðvelt með að búa til illkvittnar og blátt áfram stórhættulegar persónur. Allar myndir þeirra eru mjög frábrugnar hver annarri. Sumar eru súrrealískar meðan aðrar eru grafalvarlegar. Samt er hægt að tala um ákveðinn stíl sem þær búa allar yfir og þegar maður tekur eftir honum veit maður að verið er að horfa á mynd eftir þessa tvo eðalleikstjóra. Alltaf þegar creditlistinn birtist lofa ég kvikmyndalistina í hástert og fæ aftur trú á bandaríska kvikmyndagerð.
1.Paul Thomas Anderson. Þrátt fyrir lof mitt á myndum Coen bræðra finnst mér næstum ófyrirgefanlegt af akademíunni að ræna titlinum “besta mynd ársins” af There Will Be Blood. Titlinn hlaut áðurnefnd No Country For old men sem, þrátt fyrir að vera stórkostleg kvikmynd, hafði ekki nærri því jafn mikil áhrif á mig og mynd Andersons. Ég hef nú horft tvisvar á myndina og get ég enn ekki ákveðið hvað það besta við myndina er. Hvort það er stórbrotinn leikur Daniel Day-Lewis, hin ískyggilega tónlist eða nær lýtalausa kvikmyndataka. Leikstjórn Anderson er stórkostleg. Bæði þekkt og óþekkt nöfn í leiklistarheiminum leika nánast óhugnanlega raunverulega og hver setning, hvert andartak, hvert sekúndubrot virðist vera útpælt í þaula. Eftir því sem nær degur á myndina líður manni sífellt verr og þegar lokasetning myndarinnar, sem jafnframt er ein besta setning áratugarins í kvikmynd, heyrist og strengjasveitin byrjar að spila langar mann ekkert fremur en að hrópa það út á götu hve geðveikur leikstjóri Paul Thomas Anderson er.
Að lokum ætla ég að nefna hér nokkra leikstjóra sem að hafa gert mjög góðar myndir en ég get ekki sett á listann. Ástæðan er sú að ég hef einungis séð eina mynd eftir þá og treysti mér því ekki til að dæma um það hvort leikstjórinn hafi verið góður eða heppinn.
Spike Jonze
Martin Scorsese
Sofia Coppola
Guillermo del Toro
Oliver Hirschbiegel
Florian Henckel von Donnersmarck
Þið fyrirgefið allar stafsetningar-og staðreindavillur.
Veni, vidi, vici!