Sælt verið fólkið!

Sáuð þið síðasta Fókus? Fjallað var um stelpuna sem gerði heimildarmynd
ásamt bróður sínum um þátttöku sína í Ungrú Ísland.is. Aðstandendur
keppninnar hafa verið að reyna láta banna myndina, m.a. með því að hóta
lögbanni.

Hérna að neðan er bréfið sem þeir sendu á Hrönn. Það er ekki hægt að sjá
betur á þessum skrifum en að þær stúlkur sem standa að Ungfrú Ísland.is séu
verulega stressaðir yfir innihaldi myndarinnar og hafi eitthvað mikið að fela.
Annars hótar maður varla 2 ára fangelsi!

Hvað finnst ykkur um þetta?

B.

—-
“Efni: Ólögmætar kvikmyndaupptökur af keppnishaldi og keppendum í
fegurðarsamkeppni Ungfrú Ísland.is á árinu 2000

Til okkar hafa leitað forsvarsmenn Ungfrú Ísland ehf, umbj. okkar, vegna
óleyfilegra upptakna yðar á myndefni, af keppnishaldi og þáttakendum í
fegurðarsamkeppni Ungfrú Ísland.is ársins 2000. Hefur umbj. okkar verið
tilkynnt að þér séuð að undirbúa gerð “heimildarmyndar” um keppnina og
hyggist selja þá mynd til sýninga í kvikmyndahús og/eða á sjónvarpsstöðvar.
Af hálfu umbj. okkar er þess krafist að mynd yðar verði ekki sýnd
opinberlega, hvorki í formi heimildamyndar eða á annan hátt. Myndupptökur
yðar voru ólögmætar og er opinber birting þeirra með öllu óheimil.

Umbj. okkar stóð að undirbúningi og framkvæmd Ungfrú Ísland.is keppninnar
og kostaði hana. Auk þess sem umbjóðandi minn aflaði sér með samningum
nauðsynlegra heimilda til þess að taka upp keppnina og einkarétt á því að sýna
hana og/eða frá henni opinberlega. Þannig er staða umbj. okkar í þessu
sambandi algerlega hliðstæð stöðu kvikmyndaframleiðenda, sem á auðvitað
einkarétt á því að taka upp og sýna efni sem hann hefur sjálfur kostað til. Í
þessu sambandi skal getið að umbj. okkar gerði samning við Stöð 2, þar sem
umbl. okkar veitti Stöð 2 einkarétt til beinnar sjónvarpsútsendingar frá
keppninni. Opinber sýning á “heimildarmynd” yðar um keppnina sem tekin var
upp á keppninni, brýtur því gegn lögvörðum einkarétti umbj. okkar.

Þá var gerður samningur við hina heimsþekktu fyrirsætu, Claudiu Schiffer, um
að hún mætti til keppninnar og sæti í dómnefnd, þar sem umbj. okkar
skuldbatt sig m.a. til koma í veg fyrir myndatökur af henni, nema þær væru
sérstaklega heimilaðar fyrirfram.

Þáttakendur í keppninni gáfu umbj. mínum leyfi á myndatökum og birtingar á
þeim í ýmsum tilgangi, t.d. ljósmyndir og viðtöl fyrir keppni og myndbirtingar
af sér á keppninni sjálfri. Samkvæmt þeim upplýsingum sem að umbj. okkar
hefur fengið, sýnir myndefni yðar upptökur frá keppninni sjálfri og
þáttakendur keppninnar við ýmsar aðstæður (t.d. í búningsklefanum), sem og
einkasamtöl þáttakenda sín í milli og við aðra á meðan keppninni stóð. Þá hafa
flestir þáttakendur keppninnar lýst því yfir skriflega við umbj. okkar að þær
hefðu verið mótfallnar upptökum yðar og þær samþykki ekki að myndefni af
þeim verði notað í “heimildarmynd” yðar og sýnt opinberlega. Það er því ljóst
að upptökur yðar á myndefni og þess þá heldur til opinberrar birtingar fóru
ekki fram með vitund eða vilja þáttakenda eða annarra sem störfuðu við
keppnina. Sérstök athygli er vakin á því að myndefni sem hefur að geyma
upptökur af einkasamtölum og/eða við aðstæður sem ekki eru ætlaðar öðrum
til sýnis en þeim sem þar eru staddir brjóta gegn friðhelgi einkalífsi
viðkomandi aðila. Opinber birting slíks myndefnis felur í sér brot gegn 229. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varðar slíkt brot sektum eða fangelsi
allt að 1 ári, fyrir utan sjálfstæðan bótarétt á hendur yður.

Óþarfi ætti að vera að minna á að óviðurkvæmileg umfjöllun eða ærumeðandi
kann að fela í sér brot gegn 234., 235., og 236. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940 og varða slík brot sektum eða fangelsi allt að 2 árum, fyrir utan
sjálfstæðan bótarétt á hendur þess sem slíkt athæfi fremur.

Umbjóðanda mínum gengur það ekki til að hefa með nokkrum hætti
tjáningarfrelsi yðar eða listrænt frelsi og er yður auðvitað fullkomlega heimilt
að setja fram skoðanir yðar og sjónarmið um keppnina, svo lengi sem það
brýtur ekki gegn rétti umbjóðanda míns og þáttakenda í keppninni, skv.
framangreindu.

Hafi undirrituðum ekki borist skriflegt svar frá yður eð aumboðsmanni frá
yður innan sjö (7) daga frá dagsetningu bréfs þessa, þar sem staðfest er að
“heimildarmynd” yðar verði ekki sýnd opinberlega, verður öllum
kvikmyndahúsum og sjónvarpsstöðvum á landinu sent bréf þess efnis, að
verði þeim boðoin “heimildarmynd” yðar til sýninga, þá beri þeim að hafna
slíkri beiðni, þar sem sýning myndarinnar opinberlega brýtur gegn einkarétti
Ungfrú Ísland ehf. og myndi brjóta gegn friðhelgi einkalífs almennra borgara.

Ef að þér eða samstarfsmenn yðar, reynið að fá “heimildarmynd” yðar sýnda
opinberlega, hvort sem er í heild eða að hluta, í kvikmyndahúsum, í sjónvarpi
eða með öðrum miðlum, verður umsvifalaust krafist lögbanns við sýningu
“heimildarmynd” yðar. Loks áskilur umbj. okkar sér allan rétt til þess að verja
hagsmuni sína með hverjum þeim hætti sem tiltækur, m.a. með almennri
lögsókn og/eða kæru til opinberra yfirvalda.

Virðingarfyllst,
f.h. Ungfrú Ísland ehf

Ægir G. Sigmundsson, hdl.
Lögmenn við Austurvöll.”