The Negotiator - 5 * mynd The Negotiator
1998

Leikstjóri: F. Gary Gary

Aðalleikarar: Samuel L. Jackson, Kevin Spacey, David Morse (vondi karlinn í Myrkvasöngvarinn), Paul Giamatti (Planet of the Apes, Man on the moon, Saving Private Ryan, o.fl.)

Ég verð að játa að þessi mynd kom mér verulega á óvart. Þegar ég heyrði nafnið “THE NEGOTIATOR ” (lesist með austurrískum hreim) þá hélt ég að þetta væri einhver þriðja flokks Stallon mynd! En annað kom á daginn.

Það sem stendur spennumyndum oftast fyrir þrifum er að ekki er nægjanleg vinna eða metnaður er lagður í handritsgerð. Það er yfirleitt bætt upp með sprengingum og bílaeltingaleikjum. Þetta kemur fram í því að áhorfandinn spyr sjálfann sig sífellt : “Afhverju gerir hann ekki bara …. ” eða “Þetta getur ekki staðist í raunveruleikanum”.

Í “The Negotiator” er þessu ekki svona farið. Þar eru gáfur og úrræðasemi í aðalhlutverki en kraftur og styrkur í aukahlutverki. Þetta er barátta manns við kerfið. Getur hann unnið?

Samuel L. Jackson er í aðalhlutverki sem Dannys Roman. Danny vinnur sem samningsmaður (e. negotiator) og er einn sá besti í faginu. Hann getur talað hvaða vitleysing til og er mjög djarfur. Hann er nýgiftur og heimurinn brosir framan í hann. Þá dag einn hefur hann spurnir af því að einhver sé að stela úr eftirlaunasjóði lögreglumanna í Chicago (þetta gerðist í raun og veru á áttunda áratuginum). Stuttu seinna er félagi hans drepinn (hann var að rannsaka þjófnaðinn) og það lítur út fyrir að Danny hafi myrt hann auk þess að það lítur út fyrir að hann sé sá sem steli úr sjóðinum.

Nú er það svart mar, þetta er ekki eftir Bjartmar….

Danny mun fara beinustu leið í fangelsi og sökudógarnir ganga ennþá lausir. Hann sér bara eina leið færa til að finna hverjir standa bak við þetta og hreinsa þar með mannorð sitt. Sú leið er að gera það sem hann veit ALLT um: taka gísla.

Hann fer á Innra eftirlit lögreglunnar og tekur þar gísla. Þar á meðal er maðurinn sem er að rannsaka mál hans og veit því hvernig í pottinn er búið. Nú lendir lögreglan í vandræðum. Danny er snillingur í að semja við gíslataka og hann kann öll trixin. Hvernig eiga þeir að ná honum út? Málin vandast enn þar sem í hópi lögreglumannana eru vinir Danny's og óvinir. Það eru nefnilega til þeir menn sem vilja hann feigan til að hylja yfir gerðum sínum.

Danny getur ekki treyst neinum og því kallar hann til Chris Sabian (Kevin Spacey) til að vera samningsmaður hans. Getur Chris bjargað Danny? Nær Danny að komast að sannleikanum með allt lögregluliðið á hælunum? Þetta er alveg þrælspennandi og ef þú ert ekki búin(n) að sjá myndina gerðu það þá núna.