Kvikmyndin A Beautiful Mind sem nýverið var tekin til sýninga hér á landi hefur hlotið fern Golden Globe verðlaun og er af mörgum talin vera líklegur sigurvegari á næstkomandi Óskarsverðlaunahátíð. Það er kannski ekki að undra þegar um er að ræða jafn föngulegt lið og stendur á bakvið A Beautiful Mind. Leikstjóri myndarinnar er Ron Howard, en hann hefur verið viðriðinn kvikmyndaiðnaðinn allt frá blautu barnsbeini og hefur m.a. leikstýrt myndum eins og Cocoon, Far and Away, Apollo 13 og á seinasta ári The Grinch. Margar mynda Howards hafa hlotið miklar vinsældir. Leikararnir sem fara með aðalhlutverkin hafa einnig vakið athygli fyrir leik sinn; Russell Crowe hlaut Óskarsverðlaun fyrir Gladiator, Jennifer Connelly var tilnefnd til Independant Spirit verðlaunanna fyrir leik sinn í Requiem For a Dream og Ed Harris hefur hlotið a.m.k. þrjár tilnefningar til Óskarsverðlauna. Auk þess hefur margt af því starfsfólki sem kemur að A Beautiful Mind tekið þátt í gerð vinsælla mynda. En þó eru gagnrýnendur ekki á eitt sáttir um gæði þessarar kvikmyndar. Hún er að ýmsu leyti bara enn ein Hollywood-klisjan.
A Beautiful Mind er byggð á ævi Nóbelsverðlaunahafans John Forbes Nash, Jr. og samnefndri ævisögu eftir Sylviu Nasar. Eins og vænta má af sannsögulegri kvikmynd er sannleikurinn um æfi þessa manns aðeins hafður til hliðsjónar og atriðum síðan sleppt og bætt inn í eftir því sem hentar framvindu kvikmyndarinnar og áhuga áhorfendanna. John Nash (Russell Crowe) er sérvitur stærðfræðisnillingur sem á sér þann draum heitastan að finna frumlega hugmynd. Það gerir hann og kemst langt í heimi snillinganna. Hann hittir Aliciu Larde (Jennifer Connelly) og kynnist ástinni. En þá byrjar að halla undan fæti hjá John, því að í ljós kemur að hann á við geðvandamál að stríða. Raunveruleikinn blandast ofskynjunum og John verður ómögulegt að lifa eðlilegu lífi. Þrátt fyrir slæmt útlit tekst John með hjálp ástarinnar að hafa stjórn á ofskynjunum og í lokin hlýtur hann þá viðurkenningu sem hann sóttist eftir frá upphafi.
Það er ýmislegt áhugavert (þó að það sé kannski ekki sérstaklega frumlegt) við A Beautiful Mind og þá sérstaklega hvað varðar kvikmyndatöku og klippingu. Það er t.d gaman að því hvernig sjónarhorn Johns sjálfs er ráðandi framan af. Það gerir það að verkum að áhorfandinn sér heiminn með augum Johns og það er afar óvænt þegar skipt er yfir á sjónarhorn Aliciu og kemur í ljós að það sem hann sér er ekki raunveruleikinn. Einnig er það skemmtilegt hvernig áhorfandinn er látinn draga ályktanir af því hver staða persónanna (Johns sérstaklega) er gagnvart umhverfi sínu. T.d. þegar John og William Parcher (Ed Harris) eru á gangi um háskólalóð í myrkri, en sú sena minnir á atriði í kvikmynd Orson Welles, The Trial og er oft tengd firringu. Þannig getur áhorfandi túlkað umhverfi mannanna í þessari senu og hlutfallið milli þeirra og bygginganna í kring sem einhverskonar firringu eða óraunveruleika.
Það er vel hægt að nefna fleira áhugavert við þessa kvikmynd, eins og t.d þær brellur sem notaðar eru til að lýsa ímyndunarafli Johns og tilþrifamikill leikur bæði Crowes og Connelly, en eftir á að hyggja komu mörg þessara atriða fyrir sem einhverskonar þvinguð tilraun til þess að gera „góða“ mynd. Er það aðallega út af hinni augljósu klisju sem virðist hafa verið þema myndarinnar –ástin sigrar allt– sem að allar tilraunir til frumleika mistakast. Brellurnar voru aðeins til að auka á ævintýrablæ þessarar sannsögulegu kvikmyndar og virkuðu hálfpartinn eins og kökuskraut, en ekki partur af heildinni. Þrátt fyrir mikla leiktúlkun og líkamsleik voru persónurnar grunnar og einfaldar staðalmyndir, líklega vegna þess að þessi fyrrnefnda gegnumgangandi klisja gengur ekki upp í raunveruleikanum.
Kvikmyndum ber svo sem engin skylda til að fylgja raunveruleikanum, en það er óneitanlega erfiðara að bera virðingu fyrir kvikmynd sem gefur sig út fyrir að vera sannsöguleg heimild um þrautagöngu og sigur „alvöru“ fólks en sýnir síðan afar einfaldaða glansmynd af þessu fólki; lífi þeirra og ástum. Í henni er dregin upp brengluð mynd af lífinu en hún selur sig m.a. út á raunsæi. A Beautiful Mind hefur flest allt það til að bera sem að góð Hollywood-mynd þarf að hafa til að ná vinsældum og jafnvel hljóta Óskarsverðlaun, enda eiga þau verðlaun kannski ekki eins mikla virðingu skilda og raun er. Sjálfri þykir mér gaman að horfa á slíkar myndir, en það sorglega er að þessar kvikmyndir, klisjurnar, fá yfirleitt mikla athygli og meiri en þær myndir sem hugsanlega gætu á einhvern hátt hreyft við manni eða haft áhrif á mann! Það væri gaman að sjá breytingu á gæðamatinu í kvikmyndaiðnaðinum, en það er kannski vandamálið. Kvikmyndir eru iðnaður og þær verður að selja. Kannski breytist þetta aldrei, kannski verða klisjurnar alltaf vinsælari, allvega breytist það ekki fyrr en að okkar eigið mat á því sem skiptir máli breytist.

Melkorka Óskarsdótti