“A Beautiful Mind”
Lengd: 134 mínútur.
Frumsýnd: 1. mars 2002.
Leikstjóri: Ron Howard.
Aðalhlutverk: Russell Crowe,
Jennifer Connelly og Ed Harris.
Tegund myndar: Spennumynd/Rómantísk/
Drama.
Framleidd af: Imagine Entertainment.
Aldurstakmark: Bönnuð innan 12 ára.
_____________________________________
“A Beautiful Mind” er einstök mynd þar sem áhorfandinn fær að kynnast nýrri og talsvert betri hlið af Russell Crowe (sem sýnir sína albestu frammistöðu hingað til), og er einstaklega trúverðugur sem stærðfræðigoðið John Nash. Myndin leit síst út fyrir að vera mikil snilld þegar ég sá fyrst brot úr henni, en eftir að hafa unnið til fjölda verðlauna (og Roger Ebert kallaði hana eina allra bestu mynd síðasta árs) fékk ég óvenju mikla löngun til að sjá hana. Svo eftir á var hún bara mun átakanlegri og yndislegri en ég bjóst við. Handritið er mjög vel unnið (það er nánast ótrúlegt hvernig Akiva Goldsman, sem stóð á bak við handritið á hörmunginni “Batman & Robin” (og einnig “Lost in Space”-viðbjóðinum), skuli hafa skrifað handrit af stakri snilld og leikstjórn Rons Howard (“How The Grinch Stole Christmas”, “EdTv”, “Ransom”, “Apollo 13”, “Backdraft” o.fl. o.fl.) er traustari en nokkru sinni fyrr. Jennifer Connelly (sem hóf ferilinn í óþekktum B-myndum en er núna orðin stórstjarna) leikur Aliciu Nash, og ég verð að segja að þessi ótrúlega leikkona getur gert allt þegar það kemur að kvikmyndum. Sjálfum fannst mér leikur hennar raunverulegri í “Requiem for a Dream” en samt sem áður tekst henni að fara með leiksigur hér. Connelly átti hiklaust skilið óskarsverðlaunatilnefningu fyrir frammistöðu sína úr þeirri mynd, en synd var að það gekk ekki upp. Það er ekki ólíklegt að hún fái eina slíka fyrir túlkun sína í þessari, og Crowe líka að sjálfsögðu. Gæðaleikararnir Christopher Plummer (“The Insider”, “12 Monkeys”, “Wolf”, “Malcolm X” o.fl. o.fl.) og Ed Harris (“Enemy At The Gates” og alltof margar góðar myndir) eru í aukahlutverkum, og eru jafn góðir og hafa ávallt verið. Adam Goldberg (sást einhvern tímann í Friends, og lék lítið hlutverk í EdTV) og Paul Bettany (sem lék Chauser í A Knight's Tale) láta líka sjá sig og tekst þeim að gera sín smáhlutverk skemmtilegri. “A Beautiful Mind” er mjög áhrifamikil, myndatakan er mjög góð og hin fallega tónlist James Horner kemur sér vel fyrir. Myndin getur talist sem góð hvíld frá hinum hefðbundnu Hollywood myndum. Hún nær m.a. hæðum “Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring” (sem var brilliant) auðveldlega, það er ekki spurning. Satt að segja fannst þessi mynd vera örlítið betri (það verð ég að viðurkenna), þó að einhverjir séu eflaust ósammála mér. Sú ástæða er einfaldlega vegna þess að lögð er meiri áhersla á tilfinningar heldur en sjónbrellur. “A Beautiful Mind” verður ekki betur lýst en séð og verður í langan tíma á mínum lista yfir bestu myndir undanfarna tíð. Myndin er undrun frá upphafi til enda og nær bókstaflega að halda manni við efnið allan tímann án þess að líta undan. Þú skalt alls ekki láta hana fram hjá þér fara.
Þetta er frábær mynd í alla staði sem á ekki skilið minna en fullt hús.
*****/*****
Takk fyrir,
goldy.