Final Fantasy: The Spirits Within Ég sá þessa mynd síðasta sumar og var eins og sagt er á útlensku “blown away”. Ég var örlítið búinn að lesa mér til um hana í Empire en ekki það mikið að ég vissi hverju ég var að búast við. Jú, fólkið í Empire var búið að segja að þetta yrði mjög flott mynd grafísklega séð en það hefur oft verið sagt um verri myndir, því þetta er ein sú allra flottasta sem ég hef séð.

Nú ef ég fer í örlítið af tækniatriðum. Myndin er framleidd af Square Pictures í samstarfi við Columbia Tristar og er leikstýrt af Hironobu Sakaguchi og Moto Sakakibara. Leikstjórinn, Sakaguchi hefur verið viðriðin alla Final Fantasy leikina og skrifar handritið að þessari mynd ásamt Al Reinert. Þekktustu leikararnir sem talsetja myndina eru:
Alec Baldwin ( sem Captain Gray Edwards )
Ving Rhames ( sem Ryan )
Steve Buscemi ( sem Neil )
Donald Sutherland ( sem Doktor Sid )
James Woods ( sem General Hein )
Svo er ung hnáta sem heitir Ming-Na sem talsetur fyrir aðalpersónuna Doktor Aki Ross. Hún er ekki óþekkt talsetningum en hún talsetti einmitt sjálfa Mulan í Disney myndinni. Einnig lék hún Chung-Li í Street-Fighter ( gamla góða ruslið með Jean-Claude Van Damme ) og hefur leikið í ER sjónvarpsþáttunum.

Myndin hefur verið lengi í framleiðslu en alvöru teiknivinnan byrjaði árið 1997, sem gerir fjögurra ára prósess, þangað til hún var gefin út árið 2001.

Sagan segir frá kvenhetjunni ( sem á ensku er borið fram heróín. Makes me smile everytime ), Doktor Aki Ross. Ungur doktor sem ásamt læriföður sínum Doktor Sid reyna að safna öndum jarðarinnar saman. Þannig ætlast þau til að bjarga því sem bjargað verður af jörðinni frá þeirri miklu hættu sem hrjáir jörðina, geimverur. Þessar geimverur gangast undir nafninu Phantoms, þar sem að þær eru ósýnilegar og stráfella lífverur með snertingunni einni saman. Þær geta einnig komið sér fyrir inni í líkömum lífveranna og dvalið þar í stuttan tíma þar til hún brýst út og þá er voðin vís. Doktor Sid hefur komist að ýmsu um þessar geimverur og orkusviði þeirra og með því náð að byggja upp deyðandi byssur og varnarveggi. Hann vill komast til botns í þessum geimverumálum og ná að útbúa sérstakan orkuvarpa sem núllar út orkusvið Phantomana og eyða þeim þannig. Hann nýtur hjálpar frá Aki sem er í raun hýsill fyrir einhvern Phantomsræfil. Hann gerir tilraunir á Aki og nær að stjórna útbreiðslu Phantomsins í Aki og vill með tímanum eyða honum algjörlega með orkuvarpanum. Sýkilsphantominn í Aki hjálpar hennir reyndar að skilja hvað Phantomarnir eru í raun og veru.

Doktor Sid trúir mikið á goðsögnina um Gaiu. Sem felur í sér að jörðin er lifandi. Ekki ólíkt og Móðir Jörð sem margir trúa að sé í raun lifandi vera. Gaia er einungis gamalt nafn á jörð. Þessar hugsanir og kenningar um Gaiu eru því miður ekki leyfðar og hér um bil fangelsishæfar. Þar með er Doktor Sid orðinn að gömlum rugludalli og það nýtir vondi karlinn sér. General Hein vill eyða Phantomunum með svakadauðageisla, Zeus, og er alveg skítsama um hvort kenningarnar um Gaiu eru raunverulegar eða ekki. Þetta tvinnast allt saman í afbragðsgóða skemmtun.

Margir hafa kvartað yfir því að söguþráðurinn sé hunddrepleiðinlegur og komi sjálfum tölvuleikjunum ekkert við. Þá tel ég að fólk sé ekki nógu opið og vanti alla ævintýraþrá í þau. Fólk er of jarðbundið og fílar bara ekki fantasíur yfir höfuð. Varðandi það að hún er ekki byggð á neinum sérstökum leik er að það er ætlast til þess að myndin sé í rauninni sjálfstæður leikur ( sem, döh, ekki er hægt að leika sér í ).

Doktor Sid er reyndar ágætis tenging við leikina. Nema að í leikjunum heitir hann Cid, gamall vitur karakter sem reynist oftar en ekki notadrjúgur í framvindu leiksins. Chocobos er önnur tenging við leikina og einnig Gaia kenningin. Reyndar hef ég ekki spilað leikina, en á ef til vill eftir að gera það og á myndin mikinn þátt í því.

Ég hef verið að velta því fyrir mér af hverju Final Fantasy fékk ekki tilnefningu til Oscarsverðlaunanna, sem Best Animated Feature Film. Hún er ekkert smá vel teiknuð og ég er mjög svekktur.

Áður en ég lík þessari gagnrýni minni vil ég útskýra fólki stigagjöfina mína. Ég er ekkert að væflast með stjörnur eða súkkulaðikökur. Svona er stigagjöfin mín:
Bíómynd ( best væri að að sjá þessa mynd á stórum skjá í kvikmyndahúsi )
Eigumyndband ( best væri að eiga þessa mynd á DVD eða Videospólu )
Leigumyndband ( best er að leigja myndina frá einhverri af vídjóleigunum )
Sjónvarpsmynd ( best að horfa á þessa mynd ef maður hefur ekkert að gera ).
Hægt er að vera í fleiri en einum flokk og þá er einstaklega gott að vera í bíómyndar- og eigumyndbandsflokkunum.
Eftir þessa kynningu á stigagjöf minni mun ég gefa Final Fantasy stig.

Myndin, Final Fantasy: The Spirits Within fær á sig stimpilinn:
Bíómynd og Eigumyndband ( Helst á DVD þar sem að um 4 tímar af aukaefni fylgja með og það er sko ekkert slor ).
Þakka fyrir mig og ég vona að þið hafið haft gaman af þessari grein minni.

„What have I done?“ General Hein.

- Munkur -
-Munkur-