Það er oft sem maður hefur heyrt fjallað um myndir sem falla undir film noir stílinn. Þá spyrja örugglega margir “hvað er film noir?”. Film noir er ekki beint tegund af mynd heldur meira svona stemmning í mynd.
Film noir þýðir svört mynd(noir þýðir svart,drungalegt,dökkt á frönsku). Franskir kvikmyndagagnrýnendur tóku eftir því hversu drungalegar og dökkar myndir voru í Ameríku bæði á stríðsárunum og eftir þau. Þeir gáfu því þessum myndum þetta nafn. Blómaskeið film noir myndanna var á milli 1940 og 1960. Mest megnis af myndunum er í svart hvítu til að skerpa á skuggum og ljósi. Margir vilja meina að þessi kvikmyndategund hafi orðið til vegna streytu og hræðslu af völdum stríðsins. Samfélagið var tortryggið og undirheimar mannlegrar hegðunar fóru að koma til skjalanna. Flestar film noir myndanna fjalla um glæpamenn og einfara. Einkenni myndanna eru margþætt. Uppruni skuggalegra myndramma myndanna má rekja til þýska expression-ismanum. Það var listræn bylting sem lagði áherslu á ýktar, stundum ógeðfelldar, martraðalegar myndir sem voru málaðar í sterkum svörtum og hvítum lit(ef fólk vill sjá nútíma útgáfu af þessari listgrein þá mæli ég með teikningum Frank Miller´s í Sin City).
Stemmningin sem þú finnur fyrir í film noir myndum er þunglyndisleg,útlegð,vonleysi,tálvonir,vonbrigði,svartsýni, tvíræðni,siðferðisleg spilling,illska,sektarkennd og ofsóknarbrjálæði. Hetjur og andhetjur, spilltir einstaklingar,harðir einkaspæjarar og lögreglumenn,glæpamenn, ríkisútsendarar, stríðshetjur, aumir glæpamenn og morðingjar. Fólkið í þessum myndum er oftast siðspillt og skríður undan skuggalegum en ríkjandi glæpaheim þar sem ofbeldisglæpir og spilling ræður ríkjum. Þessir glæpamenn eru kaldhæðnir, hættulegir,illkvittnir,fyrirlitlegir,hræddir og óöryggir einfarar sem berjast fyrir því að lifa af með öllum ráðum.
Konurnar í þessum myndum er oft á tímum skipt í tvo hópa. Fyrri hópurinn samanstendur af konum sem eru skylduræknar,traustar og elskulegar. Hin hópurinn er kallaður femme fatale, sem þýðir einfaldlega hættuleg kona. Þær eru skrýtnar,svikular,fallegar, harðar af sér,ótraustar,stjórnsamar, óábyrgar og örvæntingarfullar.
Oftast þarf karlpersóna í film noir myndum að velja á milli kvenna sem koma úr báðum þessum hópum og oftar en ekki velja þeir femme fatale.
Sögusviðið í flestum film noir myndum eru gruggug og drungaleg stræti stórborgar,illa lýstar íbúðir,hótelherbergi í stórborgum.
Frásagnaraðferðin er oftast flókin,þeas það er mikið um flashback senur og svo er sögumaður(sem er oftast aðalpersónan) sem hugsar upphátt. Oft eru þessar hugsarnir settar inn til að útskýra kaldhæðnislega afstöðu söguhetjunnar til lífsins og umhverfisins.
Græðgi,losti,morð,öfund og þunglyndi eru einkunnarorð film noir myndanna.
Til að nefna dæmi um klassískar film noir myndir þá mætti nefna til dæmis:
Citizen Kane - The Maltese Falcon - Double Indemnity - Detour -
D.O.A - Sunset Boulevard - The Big Heat - Diabolique - The Killing
Touch Of Evil - Vertigo - Suspicion - Shadow of Doubt - Casablanca
Síðan hefur þetta kvikmyndaform haldið áfram með myndum sem hafa fengið innblástur frá gömlu film noir myndunum. Hér eru nokkrar sem voru gerðar eftir 1960(lok blómaskeiðsins):
Point Blank - Dirty Harry myndirnar - Serpico - Chinatown - The Conversation - Death Wish myndinar - Night Moves - Three Days of the Condor - Body Heat - Blade Runner - Blood Simple - Fargo - Henry: the portrait of a serial killer - Wild at Heart - Basic Instinct - Red Rock West - The Last Seduction - Taxi Driver - The Two Jakes - Angel Heart - Palmetto - U-Turn - Heat - Se7en - 8mm
Zero Effect - A Simple plan - Hudsucker proxy - Barton Fink - The Usual Suspects - Face Off - L.A. Confidential(sem flestir samþykkja að er besta film noir mynd seinn ára) - Payback - Blue Velvet - Lost Highway - The Man Who Wasn´t There - Mulholland Drive - Memento - Pulp Fiction - Reservoir Dogs - Dark City
Það er hægt að halda áfram endalaust því film noir myndirnar upprunalegu hafa haft gífurlega mikil áhrif á kvikmyndagerðamenn í dag. Það er greinilegt að Coen bræður hafa fengið mikinn innblástur frá þeim og einnig David Lynch. Svo náttúrulega gleymi ég Alfred Hitchcock sem átti stóran þátt í að skapa þessa stemmningu í myndum. Film noir myndirnar sköpuðu líka meiri metnað í kvikmyndatöku. Nú eru menn mikið meira að spá í skugga og lýsingu heldur en áður fyrr. Sú mynd sem markaði greinileg tímamót í þeirri grein var auðvitað Citizen Kane, sem kynnti til sögunnar óvenjuleg sjónarhorn og lýsingu. Seinna varð Hitchcock ókrýndur meistari kvikmyndatökunnar þar sem hann skapaði sjónarhorn sem ennþá í dag er verið að nota.
Ef ég ætti að velja bestu nýlegu film noir myndina þá myndi ég velja tvímælalaust Memento.