Humm, jæja, alltaf virðist ég nú lenda í einhverjum ritdeilum fyrir að fíla ekki réttu myndirnar, en best að útskýra mál mitt fyrst þú hafði fyrir því að svara svo ýtarlega.
1. Þegar ég tala um að mynd hafi eitthvað nýtt fram að færa er ég ekki bara að tala um tæknibrellurnar. The Matrix er fyrsta alvöru big budget metnaðarfulla verkið sem reynir að gera vel skil þeim stíl og því andrúmslofti sem fyrirfinnst í comic books. Myndir eins og X-Men og Unbreakable hafa fylgt í kjölfarið. Þeir Warchowski bræður leggja sig í líma við að vera trúir viðfangsefninu og að falla ekki í gryfju fyrirsjáanleikans. Það var oftast ekki hægt að sjá fyrir hvað myndi gerast næst, enda pössuðu þeir sig á því að láta sögunar koma í ljós smám saman, í t2 var einfaldlega ekkert sem kom mér á óvart.
2. Ég er reyndar sammála þér að liquid metal tölvuteiknunin var ansi flott á sínum tíma, en það er líka það eina sem ég man eftir sem einhverju sérstöku í t2, og mér fannst hún ekki notuð af neinni sérstakri hugmyndaauðgi, þetta var einfaldlega ný tækni, og hún var notuð. Í Matrix voru þeir ekki einu sinni að nota nýja tækni - þeir voru bara að nota hugvitsamlegar aðferðir við þekkta tækni. Þessi snúningstækni t.d. var einfaldlega gerð þannig að þeir stilltu upp fullt af myndavélum í hring og klipptu saman filmurnar í þeim öllum. Það sem mér fannst flott við Matrix var fyrst og fremst útlitið og stíllinn, einnig tónlistin.
3. Þarna verðum við bara að vera ósammála. Ég hef einfaldlega ekkert sérstaklega gaman af hasar, nema hann sé hugvitsamlega útfærður, komi mér einhvern veginn á óvart, eða hafi bara eitthvað sem lyftir honum yfir þetta hefðbundna bang bang og eldsprengingar, sem mér leiðist frekar. Ég hef ekkert á móti hasar per se, ég þarf bara eitthvað meira til að hafa gaman af.
4. Mér fannst reyndar Neo og Trinity nokkuð skemmtilegar persónur, en það er satt að Cypher var miklu skemmtilegri (Joe Pantoliano er líka í miklu uppáhaldi hjá mér), en langskemmtilegasti karakterinn fannst mér mr. Smith (kallaði hann sig það ekki annars), sem auðvitað var ekki persóna í tæknilegum skilningi, en mér fannst talsmátinn og stælarnir í honum alveg óborganlegir. Tal mitt um vælandi unglinga og “caring” robots er kannski svolítið komið út af pirringi mínum yfir því hvað mér fannst t2 slöpp miðað við fyrstu myndina, þar sem vélmennið var í raun tilfinningalaust drápsvélmenni.
5. Ofangreindar ástæður leiða eiginlega beint til orða minna “athyglisverð, umhugsunarverð og skemmtileg”. Einnig má nefna skemmtilegar fílósófíupælingar út frá því gamla umhugsunarefni sem Descartes afgreiddi með “I think, therefore I am” (segja má að Matrix hafi það frekar “I think I think, therefore perhaps I am.”
6. Ég bara sá engan metnað í t2, en ég held ég hafi lýst þeim metnaði sem ég sá í Matrix að ofan. Hvað brellurnar í Matrix varðar, þá tengdist útfærsla þeirra iðulega ákveðnum pælingum í sögunni, eins og t.d. þessi “faster than the eye can see” hreyfing, út frá pælingum um veruleikann sem tölvuforrit og “persónur” sem hreyfa sig í gegnum þennan veruleika á forrits-levelinu sjálfu. Snúningsatriðin fannst mér vera dæmi um tækni notaða á sniðugan hátt, fremur en sniðuga tækni (sjá svarhluta númer 3).
7. Jú, það er rétt að t2 er miklu eldri og því líklegt að maður muni ekki eins vel eftir henni og öðrum. Hins vegar var þetta stórmynd, og maður gerir kröfur um að slíkar sitji eftir í minningunni. Góðar myndir gera það, að mínu mati. Orð mín voru “Ég mun alltaf muna eftir Matrix”, sem gefur til kynna þá skoðun mína að ég muni koma til með að muna eftir henni eftir 20 ár, og hins vegar “t2 er strax farin að dofna í minningunni”, sem skv. orðanna hljóðan gefur til kynna að ég muni ekki eins vel eftir henni og ég tel að ég muni muna eftir Matrix að 20 árum liðnum. (hvernig datt þér í huga að nenna að horfa á Jurassic Park 3, by the way? - einnig get ég sagt að ég sá Godfather fyrir langalöngu síðan og man vel eftir henni, enda gæðamynd).
Að lokum vil ég taka fram að ég fór ekki að taka þátt í þessari umræðu til þess eins að blammera t2, enda margar miklu verri myndir til, og í raun fannst mér t2 ekkert alslæm, bara meðalmynd. Það stakk bara svolítið í augu hjá mér þegar ég sá einhvern tala um t2 sem betri mynd að ég sendi inn stutt svar þar sem ég spurði hvort honum væri alvara. Síðan myndaðist einhver umræða um þetta og þá sendi ég inn þetta greinarsvar sem þú varst að svara, þar sem ég reyndi að útskýra hvers vegna mér þætti Matrix miklu betri en t2, og í raun vart samanburðarhæf. Ég hef greinilega ekki útskýrt mál mitt nógu vel, en hef vonandi gert það hér.
Ég veit vel að mínar skoðanir eru enginn heilagur sannleikur, en svona eru þær, og ég óska þér bara ánægjulegra stunda yfir hverjum þeim kvikmyndum sem þú kýst að horfa á.
Auk þess verð ég að segja frá því að Steven Spielberg er mesti lúði alheimsins, en það er önnur saga.