Einn af afskaplega fáum mönnum sem búa til almennilegar Hollywood-myndir í dag er leikstjórinn Michael Mann. Hann er sjaldgæf tegund. Leikstjóri sem ræður við hið “hefðbundna” Hollywood-form á myndum sínum án þess að maður verði var við smjörið og klisjurnar sem einkenna slíkar myndir. Hann er samt alls ekki öndergránd. Mikið af frægum leikurum með mikla vigt vilja vinna fyrir hann og myndir hans hafa yfirleitt stórt budget. Mann er fæddur árið 1943 í Chicago og varð fyrst frægur fyrir að hafa skapað Miami Vice-þættina en hann var aðalhöfundur og leikstjóri þeirra þátta. Þrátt fyrir að maður hugsi hálfhallærislega til Miami Vice er því ekki að neita að þessir þættir voru á tímabilinu ca. 1984-1988 algjör snilld og bjuggu að mörgu leyti til aðra lögguþætti sem fylgdu í kjölfarið. Narkotik-stemmningin yfir þáttunum hefur verið kóperuð milljón sinnum síðan. Mann hafði stússerast aðeins í kvikmyndum áður en M.V.-tímabilið hófst en lét kvikmyndir algjörlega eiga sig fram til 1992, ef undan er skilinn bíómyndin Manhunter sem hann gerði árið 1986 og er nokkuð merkileg mynd. Hér er um að ræða fyrstu bíómyndina sem inniheldur eitthverja geðsjúkustu persónu kvikmyndasögunnar, sjálfann Hannibal Lecter. Manhunter er líka byggð á fyrstu skáldsögu Thomas Harris þar sem Lecter bregður fyrir, Red Dragon. Ég mæli með því að þeir sem ekki hafa séð Manhunter kíki á hana því hún er stórgóð og ansi vanmetin. Þessa mynd á að fara að endurgera og ég sé ekki annan tilgang í því en peningahórerí. Þess má geta að leikarinn sem lék Lecter í Manhunter stendur sig bara litlu síður en Anthony Hopkins enda með sikkópatalúkkið frá helvíti.
Árið 1992 leikstýrði Mann hvorki meira né minna en Síðasta Móhíkananum með Daniel-Day Lewis og sú mynd braut ísinn fyrir Mann í að fá fleiri stórmyndaverkefni. Svo fór að árið 1995 fékk Mann tækifæri sem flestum leikstjórum hafði dreymt um en ekki tekist. Að sameina tvo virtustu leikara sinnar kynslóðar, Robert DeNiro og Al Pacino, í einhverri eftirminnilegustu glæpasögu síðari ára, Heat. Sú mynd er framúrskarandi og ég man að ég beið spenntur í marga mánuði áður en hún kom í bíó. Samt hafði ég smá áhyggjur því að það er klassískt að þegar margir stórir leikarar safnast saman í einni mynd að þá er það oft á kostnað sögunnar sjálfrar. Ekki féll Mann samt í þá gryfju og á hann mína óbilandi virðingu fyrir það. Ein af ástæðum þess að DeNiro og Pacino ákváðu þarna árið 1995 loksins að leika SAMAN (en þeir léku ekki saman í Godfather), var ekki síst sú staðreynd að Mann myndi leikstýra. Ef það er ekki gæðastimpill þá veit ég ekki hvað. Aukahlutverk þeirrar myndar voru frábærlega skipuð. Tom Sizemore, Val Kilmer, Jon Voight, William B. Fichtner, Diane Venora ofl. Allt þungaviktarleikarar þó Kilmer greyið megi muna fífil sinn fegurri.
Á eftir Heat á leikstjórnarferli Manns kom mynd sem er endalaust hægt að stúdera því að hún er rakin snilld. The Insider. Sökum vangefinna dómnefndarmanna óskarsakademíunnar fór Insider tómhent heim á óskarshátíðinni árið 2000 þrátt fyrir fjölda tilnefninga. Á sömu hátíð fóru einnig tómhentar heim, snilldarverkin The Sixth Sense og Magnolia á meðan hin ofmetna American Beauty og meðalmennskudrullan The Cider House Rules fóru heim með nokkrar styttur. Þar með afneitaði ég óskarnum endanlega. En kannski er það alveg rétt sem menn hafa sagt að ef myndir eru tilnefndar en vinna EKKI óskarinn, að þá veit maður að myndin er góð. Mikið til í því. Það er ekki feilnóta sleginn í The Insider. Sagan eitthver sú merkilegasta sem sögð hefur verið enda dagsönn. Það er eins og margir hafi ekki fattað mikilvægi vitnisburðarins hjá fyrrum yfirmanni rannsókna- og þróunar hjá Brown og Williamson-tóbaksfyrirtækinu, Dr. Jeffrey Wigand (snilldarlega leikinn af Russel Crowe). Þegar Wigand tók þá ákvörðun að “squeela” í fréttaþáttinn 60 minutes um með hvaða aðferðum tóbaksfyrirtækin hagræða nikótínmagni í sígarettum til að gera fólk háð draslinu, að þá opnuðust allar flóðgáttir fyrir lögsóknir almennings á hendur tóbaksrisunum. Flóðgáttir upp á fleiri hundruð milljónir DOLLARA sem skaðabætur! Snilldarlegt er hvernig Mann nær í myndinni að gefa naumhyggjulega til kynna hvaða fréttir voru meira í brennidepli á þessum tíma, en allt Unabomber og O.J. Simpson-málið voru á þessum tíma aðalfréttirnar, þó umfjöllunarefni The Insider sé með merkilegri fréttum sl. 20 ár eða svo! Einnig nær Mann eftirminnilega að fókusera á hlutverk fjölmiðla og og vekur hann sérstaklega upp spurningar um hversu óháðir fréttamiðlar eru í raun og veru. Sumum fannst The Insider alltof löng mynd. Ég er ekki sammála því. Uppbyggingin er hæg og dramatíseruð, en samt á svo hógværan hátt. Ég mæli reyndar ekki með að kvikmyndir fari að vera mikið yfir tvo tíma á lengd, en 188 mínútur fyrir jafnmikilvæga sögu og hér? Fullkomlega réttlætanlegt. Vart þarf að tala um afburðaleikinn í myndinni. Crowe í sínu besta hlutverki EVER og gjörnýtir tækifærið. Pacino frábær að vanda og Christopher Plummer er bein eftirlíking af Mike Wallace, fréttamanni. Hef séð þessa mynd fjórum sinnum og hlakka til að sjá hana aftur…. og aftur.
Michael Mann er talinn af mörgum einn mesti fullkomnunarsinninn í Hollywood. Öll smáatriði eru úthugsuð í þaula. Mann býr líka til “stórkarlamyndir” (sem er oft ekki gott). Þar á ég við að það er mjög macho-testósterón stemmning í öllum myndunum hans. Þar á ég við macho-innávið. Þær fjalla um menn með mikinn status í sínu umhverfi. Þetta höndlar Mann betur en flestir aðrir.
Fullkomnunarárátta hans er ein af ástæðum þess að hann landaði sögunni um Muhammed Ali. Gamli boxarinn átti sinn þátt í því að Mann var valinn sem leikstjóri myndarinnar “Ali”, en þegar þeir ræddust við sagði Ali að hann vildi ALLSEKKI að myndin um sig yrði eitthver Hallmark-tearjerker. Mann hrópaði húrra fyrir þessari skoðun gamla mannsins enda Mann ekki þekktur fyrir slíkan viðbjóð í myndum sínum. Will Smith (sem ég hef aldrei þolað en ætla að gefa honum breik hér) leikur Ali eins og kunnugt er og krafðist Mann af honum ekkert nema 120% viðleitni. Dómar um myndina lofa góðu þótt aðsókn í USA hafi ekki verið góð. Hafa ber það samt í huga að Insider hlaut mjög dræma aðsókn á sínum tíma enda Mann hafinn yfir gróðasjónarmið. Þó svo að ég eigi enn eftir að sjá Ali eins og flestir aðrir Íslendingar, býð ég ansi spenntur. Kannski af því að Muhammed Ali var stórmerkilegur maður og snillingur, en ekki síst af því að Michael Mann er leikstjóri. Og ef hann fer að klikka núna þá yrði það í fyrsta skipti…..
p.s. Ýmislegt í þessari grein er byggt á greinum úr t.d. New York Times, Empire og imdb.com.