Það er nokkuð langt síðan kvikmyndin Hearts in Atlantis var frumsýnd í Bandaríkjunum en núna er hún loksins komin á klakann. Ég hafði miklar væntingar þegar áður en ég sá myndina enda hefur Anthony Hopkins verið að gera góða hluti undanfarið. Leikstjóri myndarinnar, Scott Hicks gerði hina frábæru mynd Shine sem Geoffrey Rush fór á kostum í.
Aðalpersónur myndarinnar eru hinn 11 ára gamli Bobby (Anton Yelchin) og hinn aldraði og sjóndapri Ted Brautigan (Anthony Hopkins). Myndin gerist reyndar þegar Bobby er orðinn gamall maður og vinkona hans Carol (Mika Boorem) nýdáin. Bobby er föðurlaus drengur sem býr einn með móður sinni þegar Ted flytur inn til þeirra. Þeir Bobby og Ted vingast fljótt og Ted býður Bobby pening fyrir að lesa blaðið fyrir sig daglega því hann er orðinn of sjóndapur. Bobby tekur vel í það en hann og mamma hans eru mjög fátæk enda gaf hún honum ókeypis bókasafnskort í afmælisgjöf. Á hverjum dagi leikur Bobby sér við kærustuna sína, Carol og annan vin sinn. Það tekur Bobby ekki langan tíma að sjá hvað Ted býr yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum sem virka á ýmsan hátt.
Ég verð að segja að ég bjóst við þessari mynd betri þó svo að hún hafi ekki verið slæm. Anthony Hopkins stóð sig frábærlega í hlutverki Ted´s og Anton Yelchin er fínn en aðrir leikarar voru nú ekkert sérstakir. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Stephen King og mér fannst skrýtið að hún er aðeins ca. 100 mínútur að lengd. Það komst samt nokkuð mikið fyrir á þeim tíma. Hjá mér fær myndin 7,25/10