Jæja, ég sendi nú ekki voðalega oft inn greinar hér á Kvikmyndir, en mér datt í hug að skrifa rýni á einni af mínum “uppáhaldsmyndum”.
Batman & Robin
1997 Warner Brothers
Helstu leikendur:
Joel Schumacher
Arnold Schwarzenegger
George Clooney
Uma Thurman
Chris O'Donnell
Alicia Silverstone
Myndin fjallar um ævintýri Batman og Robin í Gotham borg. Mr. Freeze er sloppinn úr fangelsi og ætlar sér að frysta borgina með risastórri geislabyssu. Poison Ivy kemst að ráðagerðum Mr. Freeze og notfærir sér hann til að tæla Batman og Robin, etja þeim saman og reyna að ná heimsyfirráðum.
Að mínu mati er myndin er sorp. Fyrri myndirnar um Batman hafa verið skemmtilegar og frumlegar og hefur mér ávallt fundist gaman að horfa á þær þegar þær hafa verið á dagskrá. En það er gjörólíkt með Batman & Robin.
Myndinni er beint að litlum krökkum, og það sést með skæru litunum, lélegu bröndurunum (Ímyndaðu þér Arnold Schwarzenegger að brosa í trúðsbúningi eða líttu á Jingle All The Way til að skilja hvað ég á við) og langdregnum og þunnum söguþræði sem er ekki einu sinni kláraður á endanum.
Arnold eru tilgerðarlegur í hlutverki sínu. Mr. Freeze á að vera vondur náungi sem drepur alla og hafa svartan og smellinn húmor. Því miður getur Arnold ekki leikið neitt nema drápsvélmenni og hermenn og því kolfellur persóna hans strax í byrjun myndarinnar.
Uma Thurman er alls ekkert betri. Búningurinn hennar lítur út fyrir að hafa verið búinn til úr gömlum Hróa Hattar- og Pétur Pan-búningum, þar sem hann er allur tötralegur og viðurstyggilega grænn. Þó er þetta ekki eini gallinn. Ungfrú Thurman kann hreint ekki að leika heldur, allavega ekki í þessarri kvikmynd. Hún kemur með hræðilegar tuggur og vitleysu sem á að vera rosalega fyndið, og í þokkabót vinnur hún með einhverju klunnalegu skrímsli sem kann ekki að tala.
George Clooney, stjarna myndarinnar, leggur þó myndina gjörsamlega í rúst með ofleik sínum í hlutverki Batman. Hann brosir þar sem hann á ekki að brosa, þykist vera reiður þar sem hann ætti frekar að snúa sér frá myndavélinni, og kemur með hræðilega brandara á ótrúlegustu stöðum. Meðleikari hans, Chris O'Donnell í hlutverki lærisveinsins Robin, reynir að láta ljós sitt skína, en fær eiginlega ekki að gera neitt fyrr en í lok myndarinnar.
Að lokum vil ég svo nefna Aliciu Silverstone, en hún leikur nýju persónu myndarinnar; Batgirl. Ég vil persónulega bölva þeim sem datt í hug að skapa þessa persónu, þar sem hún kemur hreint ekki heim og saman við ímynd Batman.
Ég varð fyrir miklum sálrænum skaða við að horfa á þessa “kvikmynd”. Æskuhetja mín hefur nú verið eyðilögð þökk sé græðgi Warner Brothers, og ég á nú ekkert eftir nema teiknimyndirnar. Batman Forever er án efa besta myndin af þessum fjórum, og ég ráðlegg öllum að sjá hana og forðast þessa eins og heitan eldinn.
- Royal Fool