Tron Tron er ein af þessum myndum sem maður á erfitt með að skilgreina. Á vissan hátt er þetta barnamynd en samt ekki. Hluta til vísindaskáldskapur en þó ekki alveg. Spennumynd en ekki svona eins og maður er vanur. Drama og þó. Kannski einna mest fantasía? Eitt er hinsvegar víst að þessi Disney mynd frá 1982 var fyrsta mynd í kvikmyndasögunni til að nota CGI eða tölvuteiknaðar myndir og er því þess verð að maður líti aðeins betur á hana.

Söguþráðurinn er á yfirborðinu nokkuð einfaldur.
Tölvurefur (e. hacker) er klofin í frumeindirnar sínar og sendur inn í tölvu. Inni í þessari tölvu er illt forrit sem nefnist ‘Master Control Program’ sem hegðar sér eins og hver annar einræðisherra. Tölvurefurinn, sem forritaði ýmsa þætti umhverfisins sem hann er í, gengur í lið með öðru forriti, Tron, og vinkonu þess og saman berjast þau við ‘Master Control Program’.

Myndinni var leikstýrt af Steven Lisberger sem hefur svo sem ekki gert margt annað.

Í aðalhlutverkum eru:
Jeff Bridges sem tölvurefurinn (K-PAX, Arlington Road, The Fisher King)
Bruce Boxleitner sem Tron (Babylon 5)
og
Cindy Morgan sem vinkona Tron


Og þá gagnrýnin:
Ég sá þessa mynd fyrst nýlega og verð ekki sakaður um ‘nostalgiu’. ´
Ég hafði heyrt eitt og annað um hana, bæðí gott og slæmt. Ég ákvað að kíkja á hana ekki síst út af leikurunum. Jeff Bridges er jafnan góður og sem B5 aðdáandi þá þótti mér ekki verra að Bruce Boxleitner væri í henni. Það að þetta var fyrsta myndin til að nota CGI gerði svo útslagið.
Ég átti í raun von á litlu. Ég _vissi_ að söguþráðurinn væri asnalegur og ‘vísindin’ stæðust ekki. Myndin kom mér hinsvegar á óvart. Vissulega standast vísindin ekki. Þetta er fantasía. En sagan er samt áhugaverð þrátt fyrir það. Á yfirborðinu er hún mjög einföld en þegar betur er að gáð er ýmislegt áhugavert að finna undir yfirborðinu, m.a. um tilgang lífsins og frelsi. Ekki að það þvælist mikið fyrir.
Myndin heldur vel dampi og ef menn geta afborið ‘concept’-ið þá er þetta hin ágætasta ræma og vel þess virði að renna í gegnum, ef ekki fyrir annað en að sjá upphaf CGI í bíómyndum.

20th Anniversary DVD útgáfa var að koma út á R1 sem þykir mjög vegleg og þá má að lokum geta þess að framhald myndarinnar, Tron 2.0 á að koma út ár eða á næsta ári (ekki 100% öruggt þó).