Í gærkvöldi eyddi ég þónokkru af mínum mjög svo dýrmæta tíma í það að horfa á hina einstaklega lélegu mynd “Driven” með góðkunningja mínum Sly Stallone í aðalhlutverki. Ekki átti ég nú reyndar von á miklu, en myndin var ennþá lélegri en ég hélt.
Ekki ætla ég að fara að útlista eitthvað söguþráðinn í myndinni en hann var ekki upp á marga fiska, lapþunn klisja sem hefur verið notuð í bíómyndum síðan afi minn var ungur. Sly skrifaði handritið að þessari hörmung og sýnir það og sannar að honum fer best að halda sig við að leika harðhausa sem hafa takmarkaðan orðaforða.
Oftast er ég nú ekkert sérlega gagnrýninn á bíómyndir sem ég horfi á, því þótt þær séu lélegar eða illa gerðar þá finn ég alltaf eitthvað gott við þær, en það var rosalega erfitt í þessu tilfelli. Reyndar var ég farinn að hlæja þegar á leið í myndinni yfir því hve fáránleg hún er, t.d. hvað þessir árekstrar voru ýktir og augljóslega tölvuteiknaðir.
En misjafn er mannanna smekkur, svo ég vil endilega heyra ykkar álit á þessari mynd!

DZA