Það var fyrir algjöra tilviljun að ég rakst á þessa mynd á TNT (heitir víst TCM núna) fyrir nokkrum árum. Ég hafði svosem heyrt minnst á hana hér og þar en vissi sáralítið um hana.
Ekki var að sökum að spyrja; myndin greip mig strax. Það er nefnilega eitthvað við þessa mynd. Erfitt að koma því orð. Kannski er það stórleikur Bogarts sem kvennasamur einkaspæjari eða dularfulla andrúmsloftið þar sem lygar og efasemdir ráða ríkjum. E.t.v. er það bæði og sennilega er það mun meira.
The Maltese Falcon var gerð árið 1941 og er byggð á samnefndri bók. Bókin hafði reyndar verið filmuð áður, árið 1931 en sú mynd naut ekki nærri eins mikilla vinsælda og þessi útgáfa.
Myndinni er leikstýrt af John Huston, en þetta er einmitt fyrst myndin sem hann leikstýrði.
Aðalhlutverk eru í höndum Humphrey Bogart (Sam Spade), Mary Astor, Peter Lorre og Sydney Greenstreet auk fleirri. En þessi mynd var sú fyrsta þar sem Bogart lék ekki ‘vonda’ kallinn og má segja að hún hafi gerbreytt ímynd hans.
Söguþráðurinn (fyrir þá sem ekki kannast þegar við myndina) er eitthvað á þessa leið.
Bogart leikur einkaspæjarann Sam Spade. Spade rekur ásamt félaga sínum einkaspæjarastofu. Þegar félagi Spades er drepinn þegar hann er að veita manni eftirför beinist athygli lögreglunnar að Spade. Stúlkan sem bað þá um að fylgja manninum eftir reynist ekki vera sú sem hún sagðist vera, og er í raun á einhvern hátt tengd ‘Möltu Fálkanum’, stytta af fálka í fullri stærð úr skíra gulli og þétt setin af gimsteinum, og auk þess sú eina í heiminum.
Best að hafa ekki fleirri orð um það.
Þessi mynd er alveg klassísk ‘film noir’ eins og það gerist best. Engin er nákvæmlega sá sem hann/hún sýnist vera. Og myndin kemur iðulega á óvart.
Það eina sem dregur frá þessari miklu príðismynd er að ástarsambandið á milli persóna Bogarts og Mary Astor er frekar ótrúverðugt, það vantar bara allt ‘chemistry’ á milli þeirra. Þetta dregur þó lítið úr gæðum myndarinnar.
Einkunn 10/10