Nú eru nokkur ár síðan ég sá Hvít-rússnesku kvikmyndina Come and See eða Komdu og sjáðu. Þegar ég sá hana fyrst var hún sýnd í MÍR-húsinu við Vatnsstíg og pabbi minn benti mér á þessa sýningu sem ég fór á með nokkrum vinum mínum.
Nú er skemmst frá því að segja að þessi kvikmynd skildi mig eftir orlausan. Það var óþægilegt að horfa á skjáinn, samt gat maður ekki slitið sig frá honum.
Þessi mynd sem Elem Klimov gerði eftir handriti Ales Adamovich fjallar um ungan strák sem á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar er tekin er frá móður sinni í sveitahéraði í Russlandi og settur í herinn til að berjast við nasista. Hann verður viðskila við herinn og kynnist síðan unglingsstelpu og saman leita þau að leið heim en það er hægara sagt en gert. Í lok myndarinnar ráfa þau inn í þorp sem nasistar hafa náð á vald sitt og sá kafli í myndinni er einn sá áhrifaríkasti í kvikmyndasögunni. Þarna er að sjá mjög raunsanna lýsingu á ofsóknum nasista þar sem þeir brenna fólk og nauðga. Öll er þessi mynd stórkostleg sama hvar á hana er litið.
Þegar Saving Private Ryan kom út sagði Spielberg þessa mynd vera hans helsti áhrifavaldur í gerð þeirrar myndar og þegar maður horfir á Come and See með þetta í huga sér maður ýmislegt líkt með henni og Ryan.

Ef þú hefur ekki séð hana drífðu þá í því og undirbúðu þig vel…