“Ef þú hefur ekkert fallegt að segja um viðkomandi, segðu þá ekkert” sagði einhver, og finnst mér það stundum eiga við um kvikmyndir og listir eins og fólk, en þó ekki…
Það sem ég á við, er að þegar ég les athugasemdir um kvikmyndir eins og; “langdregin”, “leiðinleg”, og “asnaleg”, án frekari skýringa, finnst mér gagnrýnin oft segja meira um gagnrýnandann en kvikmyndina.
Auðvitað er fólk misjafnt eins og það er margt, og fólk bregst misjafnt við því sem birtist á skjánum, áhorfandinn á mismunandi gott með að taka söguþráðinn til sín eftir því hvað viðkomandi hefur upplifað, séð og heyrt í eigin lífi. Það er því ljóst að sumum finnst ávkeðin saga merkileg og áhrifarík á meðan öðrum finnst hún tilgangslaus og undarleg.
En sumt geta vel flestir verið nokkuð sammála um, leikarar geta verið mjög eðlilegir í hlutverki sínu þó að manni líki ekki myndin, tökur geta verið vel framkvæmdar og flottar þó að manni líki ekki senan, og mynd getur verið frámunarlega vel gerð þó að manni finnist sagan leiðinleg!
Persónulega hef ég myndað mér ákveðna hugmynd um hvað mér finnst góð mynd, og þó að söguþráðurinn valdi ekki gæsahúð og táraflóði getur mér fundist mynd góð, eða vel þess virði að sjá, og þá æði ég ekki á næsta spjallvef og lýsi því yfir að myndin sé ÖMURLEG og ÓGEÐSLEGA LANGDREGIN, eins og ég hef tekið eftir að sumir gera, og ergt mig mikið á.
Til að taka dæmi, vil ég nefna myndina Billy Elliot, sem mér finnst alveg meiriháttar mynd. Samskipti persónanna snart mig, sagan fannst mér skemmtileg og áhugaverð, leikur fannst mér frábærlega góður og leikaraval hrein snilld. Að auki fannst mér myndtaka smart og klippingar oft framkvæmdar á mjög frumlegan og skemmtilegan hátt. -Að mínum mati 5 stjörnu mynd.
En ég þekki fólk sem finnst hún ömurleg, og ég þekki fólk sem myndi aldrei fara á hana í bíó því hún fjallar um balletdansara, og svo hef ég lesið greinar hér á Huga um hversu hryllilega leiðinleg þessi mynd sé.
Þá finnst mér leiðinlegt að heyra að þessi vel gerða og hugljúfa mynd verði fyrir slíkri bullgagnrýni án nokkura vitrænna skýringa, því sumir gætu tekið bullið til sín og farið á mis við góða kvikmynd, því þó að sagan leggjist kannski ekki eins vel í alla, þá held ég að flestir geti verið sammála um að myndin sé í alla staði vel gerð, og þá er það óttalega viltaus sleggjudómur að láta hafa það eftir sér að þetta sé “léleg” mynd!
En “hæst bylur í tómri tunnu” sagði nú líka einhver….